Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þáttaraðirnar The Crown verða sex talsins

Mynd með færslu
 Mynd: The Crown

Þáttaraðirnar The Crown verða sex talsins

09.07.2020 - 17:04

Höfundar

Sjónvarpsþáttaraðirnar The Crown um bresku konungsfjölskylduna verða að minnsta kosti sex talsins, því nú hefur Netflix keypt sýningarréttinn á heilli þáttaröð til viðbótar við þær fimm sem þegar hafði verið tilkynnt um.

Nú þegar hafa þrjár þáttaraðir verið sýndar á Netflix. The Crown hefur hlotið fjölda verðlauna á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum. Höfundur þáttanna hefur áður sagt að þáttaraðirnar verði aðeins fimm. Frá þessu greinir Vanity Fair.

Í þáttunum er fylgst með afmörkuðum tímabilum í sögu konungsfjölskyldunnar og lífi Elísabetar II Englandsdrottningar. Fjórða þáttaröðin verður sýnd síðar á þessu ári og þá er áttundi og níundi áratugurinn tekinn fyrir. Þar kemur Díana prinsessa til sögunnar og Margaret Thatcher verður forsætisráðherra.

Sjötta þáttaröðin mun þó ekki færa okkur nær nútímanum, eins og þáttaraðirnar á undan. Peter Morgan, höfundur þáttanna, segir efnið sem átti að fylla fimmtu þáttaröðina einfaldlega vera of mikið. „Þegar við fórum að ræða söguþræðina fyrir fimmtu þáttaröðina varð fljótt ljóst að til þess að gera þessu sem best skil þurfum við sex seríur,“ sagði hann.

Olivia Coleman túlkar drottninguna í þáttaröð fjögur sem sýnd verður í haust, eins og í þriðju þáttaröðinni. Helena Bonham Carter túlkar áfram systurina Margréti prinsessu. Með hlutverk Margrétar Thatcher fer Gillian Anderson sem best er þekkt fyrir hlutverk sitt í The X-Files. Emma Corin leikur svo Díönu prinsessu. Þær þykja nauðalíkar.

Í fimmtu þáttaröðinni og vafalaust þeirri sjöttu hefur Imelda Staunton verið ráðin til þess að túlka Elísabetu drottningu og Lesley Manville túlkar Margréti prinsessu. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum voru það Claire Foy og Vanessa Kirby sem léku systurnar.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Söguleg sápuópera sem erfitt er að slíta sig frá

Sjónvarp

Staunton talin eiga að taka við aðalhlutverki The Crown

Menningarefni

Foy fékk lægri laun en Smith fyrir The Crown

Sjónvarp

Dýrasta framleiðsla sjónvarpssögunnar