Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Systir Kim Jong-un segir annan leiðtogafund ólíklegan

09.07.2020 - 23:47
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Kim Yo-jong, systir Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu, segir ólíklegt að bróðir sinn muni sitja annan leiðtogafund með Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu. Þeir Kim og Trump hafa átt tvo slíka fundi og var sá síðasti haldinn í febrúar í fyrra. Kim sagði í viðtali við norður kóresku ríkisfréttastöðina KCNA í dag að slíkur fundur mundi eingöngu gagnast bandarískum yfirvöldum á þessum tímapunkti.

Hún ítrekaði þó að Norður-Kórea hefði engin áform uppi um að ógna Bandaríkjunum.

Sagði Kim það sína persónulegu skoðun að ólíklegt væri að annar leiðtogafundur yrði haldinn. „En maður veit þó aldrei“ sagði hún við KCNA.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kvaðst fyrr í dag vera vongóður um að hægt yrði að endurvekja viðræður við Norður-Kóreu. Segir Reuters Pompeo hafa opnað á möguleikann að annar leiðtogafundur yrði haldinn.

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa hins vegar hafnað hugmyndum um frekari viðræður í nýlegum yfirlýsingum sínum. Kim ítrekaði frekar mótbárur Norður-Kóreu gegn stefnumálum sem þarlend yfirvöld telji fjandsamleg og ekki þjóna neinum nema Bandaríkjunum. Vísaði hún þar meðal annars til áframhaldandi refsiaðgerða í garð Norður-Kóreu.

„Við erum ekki að segja að við munum aldrei afvopnast kjarnavopnum, en við tökum það alveg skýrt fram að við getum gert það núna,“ sagði Kim Yo-jong.