Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skimuðu 500 farþega í Norrænu á leið frá Færeyjum

09.07.2020 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vel gekk að skima tæplega 500 farþega sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun. Sýnatökuteymi frá Heilbrigðisstofnun Austurlands flaug til Færeyja í gær og skimaði farþega um borð á leiðinni til Seyðisfjarðar.

Linda Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line, segir allt hafa gengið eins og til var ætlast og var skimun lokið þegar Norræna lagðist að bryggju.

Allir farþegar fái ítarlegar upplýsingar 

Um 750 farþegar komu með skipinu. Farþegar sem dvalið hafa í Færeyjum, á Grænlandi eða Íslandi síðust tvær vikur, eða eru fæddir 2005 eða síðar, þurfa ekki í skimun. Linda segir reynt að tryggja að allir farþegar fái greinagóðar upplýsingar um hvernig beri að haga sér eftir að komið er í land. Bæði séu áminningar á leiðinni frá Færeyjum og svo fái allir ítarlegan bækling eftir skimun.

Segir erlenda ferðamenn telja Ísland traust land

Hún segir að næstu vikur séu 720 til 780 farþegar bókaðir í hverri ferð með Norrænu til Seyðisfjarðar. Það sé töluvert færra en ferðaðist með skipinu áður en kórónuveirufaraldurinn brast á. „Á venjulegu ári koma 1000 til 1100 með hverri ferð. Við vissum ekki á hverju við ættum von, en þetta er alveg að detta í að verða samkvæmt björtustu vonum. Það er mikið af fyrirspurnum og spyrst út að Ísland sé opið. Erlendir ferðamenn telja Ísland traust land, það er alveg augljóst,“ segir Linda.