Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja kröfugerðina óaðgengilega og búast við verkfalli

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kröfugerð starfsmanna Herjólfs, sem eru félagar í Sjómannafélagi Íslands, er óaðgengileg. Þetta er mat stjórnar Herjólfs ohf sem kom saman í gærkvöldi. Fulltrúa Sjómannafélagsins var kynnt þessi niðurstaða á fundi í morgun. Framkvæmdastjóri Herjólfs segir að búast megi við að verði af boðuðum verkfallsaðgerðum í næstu viku.

 

Stjórn Herjólfs kom saman í gærkvöldi og þar var efnislega farið yfir kröfugerð félagsmanna SÍ sem lögð var formlega fyrir á fundi fyrr um daginn. Að sögn 

„Það er mat stjórnar að kröfugerðin er óaðgengileg og er henni hafnað. Boðin er sambærilegur samningur og áður hefur verið samið um við félagsmenn í Sjómannafélaginu Jötni,“ segir í skriflegu svari frá Guðbjarti Ellert Jónssyni framkvæmdastjóra Herjólfs en hann fundaði í morgun með fulltrúa Sjómannafélagsins þar sem þessi niðurstaða var kynnt.

Félagar í Sjómannafélagi Íslands, sem er eitt þeirra fimm stéttarfélaga sem áhöfn Herjólfs á aðild að, samþykktu verkfallsaðgerðir í atkvæðagreiðslu í lok júní og nær vinnustöðvunin til háseta, bátsmanna og þjónustufólks um borð. Deilan snýst meðal annars um vinnu- og vaktafyrirkomulag, en starfsfólk hefur bent á að færri séu á vakt um borð í nýja Herjólfi en þeim gamla, þrátt fyrir að vinnuaðstæður séu erfiðari. Um er að ræða þrjár vinnustöðvanir. Sú fyrsta stóð yfir í sólarhring 7. júlí, sú næsta er fyrirhuguð í tvo sólarhringa frá 14. júlí og sú þriðja í þrjá sólarhringa frá 28. júlí.

Á fundinum óskaði stjórn Herjólfs eftir því að sá kjarasamningur sem í boði er yrði formlega kynntur félagsmönnum SÍ og þá í kjölfarið lagður fram til samþykktar eða synjunar. Því var hafnað.

„Frekari fundir hafa ekki verið boðaðir og því liggur fyrir að boðað verkfall í næstu viku stendur eins og SÍ hefur boðað,“ að því er fram kemur í svari Guðbjarts.