Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir Háskólann á Akureyri svívirða gjöf ömmu sinnar

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Ættingi fokreiddist í gær þegar hann sá hvernig komið var fyrir svæði sem föðurfjölskylda hans gaf Háskólanum á Akureyri fyrir aldarfjórðungi. Skólinn hafi svívirt minningu ömmu hans og systkina hennar. Rektor skólans segir gagnrýnina ómaklega.

Sælureitur fjölskyldunnar

Árið 1995 gáfu systkinin frá Veisu í Fnjóskadal Háskólanum á Akureyri veglega gjöf. Stóran hluta jarðarinnar Végeirsstaða. Þar hafði fjölskyldan lengi átt sælureit, gróðursett hátt í 400 þúsund tré, byggt sumarhús og litla kapellu. Systkinin vildu að svæðið nýttist skólanum við rannsóknir og að hægt yrði að halda ræktuninni áfram. Afkomanda sem skoðaði reitinn í gær blöskraði. „Ég var eiginlega bara í sjokki, bara verulega brugðið að sjá hvernig útlitið er á öllu hér á þessum fallega reit,“ segir Sigurður Guðmundsson. Fleiri afkomendur systkinanna frá Veisu hafa lýst hneykslun sinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson

Snjóþungur vetur eða áralöng vanræksla?

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á AKureyri segir að skemmdir hafi orðið í vetur vegna snjóþyngsla. „Grindverk, handrið og pallar hafa vissulega skemmst að einhverju leyti en húsnæðið sjálft er í góðu standi, það sem var íbúðarhæft fyrir er það enn.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.

Sigurður er ekki tilbúinn að skrifa ástand húsanna alfarið á harðan vetur. Viðhaldi hafi augljóslega ekki verið sinnt frá því hann kom síðast á svæðið fyrir um fimm árum. „Síðustu þrjú, fjögur fimm ár hefur þessu hrakað verulega.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Ónýt þakrenna.

Nú eru þetta gömul hús er hægt að ætlast til þess að skólinn finni not fyrir þau?

„Ég hef enga skoðun á því en ef þú færð einhverjar eignir upp í hendurnar að gjöf er það lágmarks kurteisi og virðing gagnvart gefendum að viðhalda húsunum sem slíkum og reisn staðarins,“ segir Sigurður. Skólinn geti selt eða gert hvað sem honum sýnist en geti ekki látið húsin drabbast niður. 

Átti að nýtast í þágu skólans

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Hliðið á Végeirsstöðum.

Rektor segir einu kvaðirnar hafa verið þær að svæðið yrði nýtt í þágu háskólans, til rannsókna eða kennslu.

Skógurinn á að verða lykillinn að því að kolefnisjafna Háskólann. Húsin hafa aftur á móti verið til vandræða. Það voru ekki allir afkomendur sáttir við ráðahaginn og það varð ekki ljóst fyrr en eftir löng málaferli að húsin tilheyrðu skólanum. Skólinn hefur sinnt lágmarksviðhaldi og farið í stöku starfsmannaferð en annars lítið nýtt húsakostinn. „Bara möguleikar okkar til að byggja þetta upp hafa fyrst komið fram á síðustu árum,“ segir Eyjólfur.

Vinna við grisjun skógarins er í fullum gangi, undir stjórn sérfræðinga á sviði skógræktar en ekki verður ráðist í viðgerðir á húsunum fyrr en fyrlr liggur hvað eigi að gera við þau. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson

Úthúðar skólanum á Facebook

Sigurður vandaði stjórnendum skólans ekki kveðjurnar á Facebook og segir þar meðal annars: „Þið hafið svívirt minningu afa míns og ömmu með þessari framkomu. Hirðuleysið er slíkt að ekki einu sinni mestu skíthælar landsins hafa svona í sér. Ég óska ykkur alls hins versta sem ég geri nú í fyrsta skipti á ævi minni.“

Eyjólfi finnst gagnrýnin ómakleg. „Það er ekki góður grunnur til samtals að henda gagnrýni fram með þessum hætti.“

Hann sér fyrir sér að húsin geti nýst sem fræðimannabústaðir.  Ákvörðun um framtíðarnotkun þeirra á að liggja fyrir í haust og Eyjólfur segir að um þau áform hefði Sigurður getað fengið upplýsingar hefði hann spurt. 
Það datt Sigurði ekki í hug, segist ekki þekkja Eyjólf. „Það er í raun ekki mitt mál að fara að þusa í honum út af þessu, ég kem bara hérna sem afkomandi systkinanna sem áttu þetta á sínum tíma og var bara brugðið, ég hef gott tæki til að skrifa, kann það og það er bara minn háttur til að tjá mig.“ 

Vill ekki eignast húsin

Sumir þeirra sem skrifuðu athugasemdir við færslu Sigurðar sögðu að skólinn ætti að skila húsunum. Sjálfur segist hann ekki hafa áhuga á að eignast þau en segir sjálfsagt að aðrir afkomendur skoði hvort þeir geti komið aftur að borðinu og fengið að varðveita húsin. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV