Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Saga þjóðernishyggju samofin íþróttasögunni

Mynd: Halla Harðardóttir / Halla Harðardóttir

Saga þjóðernishyggju samofin íþróttasögunni

09.07.2020 - 11:24

Höfundar

Nýtt myndband og merki Knattspyrnusambands Íslands hefur farið fyrir brjóstið á mörgum. Gagnrýnendum þykir myndbandið þjóðrembingslegt og myndmál þess og orðræða jaðra við að vera fasísk.

Íris Ellenberger, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og sagnfræðingur, heimsótti Tengivagninn og ræddi myndbandið og hughrif þess.

„Þjóðríkið eins og við þekkjum það í dag og þessi hugmynd um þjóðina á sér ekki mjög langa sögu“ segir Íris. Hugmyndin sé í raun aðeins um tveggja alda gömul. Þá hafi þjóðarmót í íþróttum orðið til í þeim tilgangi að ýta undir þjóðarstolt um svipað leyti, saga þjóðernishyggju sé þannig samofin íþróttasögunni. 

Margt í myndbandinu minnir Írisi á þá mynd sem dregin er upp af Íslandi í heimildarmyndum. Tóninn í myndbandinu sé þó herskárri. Hún segir þær ýktu myndir sem dregnar eru upp af landvættunum vera keimlíkar myndefni frá öfga-hægrihreyfingum, líkt og Nordiska motståndsrörelsen sem hefur dreift efni með svipuðu myndmáli, meðal annars á Íslandi. 

Þjóðernishyggja á sér margar birtingarmyndir og margar þeirra eru ekki alls ekki öfgakenndar, segir Íris. Þess vegna sé mikilvægt að skoða það sem sett er fram í því ljósi, hvort verið sé að búa til farveg fyrir skaðlegri hugmyndir. „Maður sá það líka á samfélagsmiðlunum. Það var fólk sem að spratt upp myndbandinu til varnar á þeim forsendum að jú, það væri vissulega nasistablæti í þessu en það væri bara gott.“

Íris Ellenberger ræddi nýtt kynningarmyndband KSÍ í Tengivagninum. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum. 

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Kom okkur algerlega í opna skjöldu“

Evrópa

Auglýsing SAS veldur uppnámi

Íþróttir

Nýjasta íþróttaæðið að gerast landvættur