
Rekstrarafkoma ríkissjóðs var jákvæð um 42 milljarða
Þetta kemur fram í ríkisreikningi fyrir árið 2019 sem nú hefur verið sendur Alþingi.
Þar segir að þegar afkoma ríkissjóðs sé borin saman við afkomuviðmið fjármálaáætlunar og fjárlaga sé heildarafkoman í fyrra neikvæð um 39 milljarða sem sé um 24 milljörðum lakari afkoma en endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir. Fjárlög ársins höfðu gert ráð fyrir að heildarafkoma yrði jákvæð um 29 milljarða.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að hrein fjármagnsgjöld hafi verið neikvæð um 57 milljarða króna en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins var jákvæð um 78 milljarða króna. Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra í tilkynningunni að í fyrra hafi liðið að lokum lengsta hagvaxtarskeiðs Íslands sem hafi varað samfellt í 9 ár.