Öryggisþjónar passa upp á hópamyndun í Kaupmannahöfn

09.07.2020 - 15:55
epa06922671 People walk in front as all train service to and from Copenhagen Central Station has stopped and the police have evacuated the railway station, in Copenhagen, Denmark, 01 August 2018. Following TV2, the comprehensive action is that the police
 Mynd: EPA
Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn hafa nú ráðið hóp starfsmanna sem fá það hlutverk að fylgjast með hversu margir koma saman og minna fólk í leiðinni á hvernig hegðun er heppilegust til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Danska ríkisútvarpið DR greinir frá þessu og segir að nú þegar kórónuveirutilfellum hefur fækkað og dregið hefur verið úr samkomutakmörkunum verði borgaryfirvöld í sívaxandi mæli vör við að þörf sé á að minna fólk á að draga úr fjölmennum veisluhöldum utandyra og að muna mikilvægi þess að spritta sig og virða fjarlægðartakmarkanir.

„Í ár er ástandið erfitt samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar hafa leitt til þess að hátíðum og tónleikum hefur verið aflýst og klúbbar og barir loka ýmist snemma eða opna alls ekki,“ segir í fréttatilkynningu frá Kaupmannahafnarborg. Þetta geti leitt til hópamyndunar á blíðviðriskvöldum, ekki síst hjá ungu fólki.

Þess vegna hafi verið ákveðið að ráða sérstaka „öryggisþjóna“ eins og þeir eru kallaðir, en þessir starfsmenn hafa reynslu af svipuðum verkefnum m.a. á Hróarskeldu tónlistarhátíðinni.

Öryggisþjónarnir munu vinna náið með svo nefndum „hávaðavörðum“ sem þegar höfðu verið ráðnir til að fylgjast með þróuninni á stöðum þar sem hópamyndun á sér gjarnan stað í góða veðrinu til að mynda á Íslandsbryggju og Nørrebroparken.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi