Notre-Dame kirkjan í París verður endurbyggð nákvæmlega í þeirri mynd sem hún var fyrir brunann. Þetta segir í tilkynningu frá frönsku minjaverndinni CNPA, sem fer með endurbygginguna.
Kirkjan varð fyrir miklum skemmdum í bruna í fyrra og eyðilögðust meðal annars turnspírur hennar og þak. Notre-Dame er með vinsælustu viðkomustöðum ferðamanna í París og var bruni þessarar sögufrægu kirkju Frökkum mikið áfall.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hét í kjölfar brunans að kirkjan yrði endurreist innan fimm ára. Hann gaf þó síðar í skyn að hægt væri að byggja hluta hennar og þeirra á meðal turnspírurnar í nútímalegum stíl.
Þessu hefur minjanefndin nú hafnað, en hún samþykkti í dag tillögur arkitektsins Philippe Villeneuve um að Notre-Dame verði endurreist í heild og í áður þekktri mynd.
Guardian greinir frá þessu og segir æðstu menn frönsku kirkjunnar vonast til að unnt verði að messa í kirkjunni árið 2024, en það ár eiga Ólympíuleikarnir að fara fram í París.