Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Minnka framlög úr Jöfnunarsjóði um fjóra milljarða

Mynd með færslu
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði. Mynd: RÚV
Mörg sveitarfélög sjá fram á harðan vetur í rekstri sínum. Degið verður úr framlögum til þeirra úr Jöfnunarsjóði um fjóra milljarða á þessu ári. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir það vonbrigði að frumvarp um lágmarksíbúafjölda í hverju sveitarfélagi hafi ekki litið dagsins ljós á nýafstöðnu vorþingi.

Líkt og hjá hinu opinbera er ljóst að mikil efnahagslægð er í vændum vegna Kórónuveirunnar. Tekjur sveitafélaga dragast saman í takt við aukið atvinnuleysi og minni útsvarstekjur. Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga segir staðgreiðslu útsvars vera svipaða og í fyrra. Áætlanir um tekjuaukningu séu foknar út um gluggann. Þá hafi nýverið verið gefin út tilkynning frá Jöfnunarsjóði.

„Þar er búið að senda út að framlög Jöfnunarsjóðs muni dragast saman um hátt í fjóra milljaðrða til sveitarfélaganna á þessu ári, og það munar um minna. Fyrir mörg sveitarfélög er þetta gríðarlegur skellur, og það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið komi að þessum málum og að við í sameiningu fylgjumst með hvernig staðan er að þróast því við óttumst auðvitað öll hvernig mál munu æxlast næsta vetur.“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Harður vetur í vændum hjá sveitarfélögum

Komi til þess að framlög ríkisins dragist saman óttast Aldís að fjárhagsáætlnagerð sveitarfélaga verði snúin.

„Ég vona auðvitað að það komi ekki til þess að við þurfum að fara í niðurskurð á þjónustu. Reynsla okkar eftir seinasta hrun er sú að þar stóðu sveitarfélögin sig virkilega vel, stóðu í lappirnar og vernduðu störfin og stóðu vörð um þjónustustig og störf. Það viljum við svo sannarlega gera núna en það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið standi við bakið á okkur og stígi inn þegar þess verður þörf og ef þess verður þörf.“ segir Aldís.

Gæti þýtt frestun sameininga

Í vor samþykkti aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga tillögu um að lágmarksíbúafjöldi í hverju sveitarfélagi yrði 250 fyrir árið 2022, og 1000 fyrir árið 2026. Það þýðir að mörg sveitarfélög þurfa að sameinast. Frumvarp þess efnis kom ekki fram á vorþingi. 

„Það eru mikil vonbrigði því að það er ljóst að þegar þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi þá liggur fyrr meirihlutavilji þingmanna, þá myndi maður halda að frumvarp myndi líta dagsins ljós    en það gerðist ekki núna, hverju sem um er að kenna, hvort sem það er Covid eða öðru“ segir Aldís.

Hún býst við frumvarpi strax í haust en þá hugsanlega með breyttu sniði.

„Það er ekkert ólíklegt að þessi frestun sem nú er orðin staðreynd hafi með einhverjum hætti áhrif á það hvernig frumvarpið lítur út í endanlegri mynd. Við sjáum það öll að þetta er stuttur tími til stefnu svo það er ekkert ólíklegt að það verði einhver frestun á þeim tímafrestum sem settir eru fram í þingsályktuninni,“ segir Aldís.