Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lokun á Akureyri skapar svigrúm fyrir 30 fangelsisrými

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Dómsmálaráðherra segir að með lokun tíu fangelsisrýma á Akureyri skapist svigrúm til að opna fyrir þrjátíu pláss á Hólmsheiði og Litla Hrauni. 638 manns bíða nú eftir því að komast í afplánun.

Nýta fjármunina betur

Margir hafa gagnrýnt þá ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri. Nú síðast í gær þegar bæjarstjórn Akureyrar sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir meðal annars að ákvörðunin gangi þvert á yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Fimm manns starfa í fangelsinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir að með þessu nýtist fjármunir stofnunarinnar betur. 

Nýtingin á Akureyri undir 80%

„Þetta er auðvitað ekki léttvæg ákvörðun og það er stefna okkar að færa störf út á land en það verður líka að vera með þeim hætti að það sé að skapa störf sem borga sig. Hérna erum við auðvitað að sjá það að fangelsisnýtingin og kostnaðurinn við að halda uppi þessu fanelsi er mjög þungbær. Bæði erum við að sjá undir 80% nýtingu á fanglesisrýmum, við sjáum ekki aukið fjármagn í fangelsismál á næstunni og hægt að nýta þrjátíu pláss í stóru fangelsunum fyrir sama fjármagn og við nýtum tíu fyrir norðan," segir Áslaug.

Áfram unnið að fjölgun opinbera starfa á landsbyggðinni

Áslaug segir að þrátt fyrir þetta verði áfram unnið að því að færa opinber störf til landsbyggðarinnar. 

„Ég er því frekar að skoða, og hef verið að vinna að því hörðum höndum að færa störf út á land, eins og frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefni sem hægt er að sinna á landsvísu, meðal annars fyrir norðan og á öðrum stöðum."

Leysir húsnæðisvanda lögreglunnar

Fram til þessa hafa fangaverðir á vegum Fangelsismálastofnunar sinnt föngum sem gista fangageymslur lögreglunnar á Akureyri. Lögreglan á Akureyri hefur bent á að nú þurfi að fjölga starfsfólki.

„Lögreglan hefur líka þurft aukið rými og stærra húsnæði og nú er að mörgu leiti hægt að leysa það með því að færa fanglesið þar sem það er í sama rými í dag. Auðvitað hefði mönnunin heldur ekki gengið ef lögreglan hefði fært sig annað og ekki verið með fanglesinu ef við hefðum þurft stærra húsnæði."