Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lífi 74 hefði mátt bjarga með bílbeltum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Af þeim sem dóu í bílslysum síðastliðin tuttugu ár hefðu 74, eða um fjórðungur, sennilega lifað af hefðu þeir verið í bílbeltum, samkvæmt upplýsingum rannsóknarnefndar samgönguslysa. Um tíu prósent landsmanna nota ekki bílbelti að staðaldri. Það er sorglegt að svo margir noti ekki bílbelti, segir rannsóknastjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Þau séu öflugt öryggistæki.

Þrjátíu og fimm þúsund landsmenn nota ekki bílbelti að staðaldri, að því er kemur fram í tilkynningu Samgöngustofu. Sævar Helgi Lárusson, rannsóknastjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir það geta verið stóran þátt í slysum að fólk spenni ekki beltin.

„Því miður þá gerist það reglulega að við rannsökum slys þar sem einstaklingur sem slasast mjög alvarlega eða jafnvel lætur lífið, er ekki spenntur í belti og miklar líkur á að mun betur hefði farið hefði beltið verið spennt,“ segir Sævar Helgi.

Hann segir að frá 2000 til 2019 hefðu 74 af þeim sem létust í bílslysum sennilega lifað af hefðu þeir verið með beltin spennt. Þetta er um það bil fjórðungur þeirra sem lést í bifreiðum. Sævar Helgi segir að ekki skipti máli hvort fólk situr í framsæti eða aftursæti, brýnt sé að spenna beltin. Sá sem ekki notar bílbelti getur slasað þá sem eru með beltin spennt. 

„Fólk kastast til og frá eins og dúkka i búri og getur lent illa á öðrum farþegum eða ökumanni,“ segir Sævar Helgi.

Af miklum þunga þá?

„Já, já. Þetta eru miklir kraftar sem verka í bílslysum,“ segir Sævar Helgi.

Seini árin hafi slys sem þessi verið tíð meðal erlendra ferðamanna.

„Þetta hefur verið svolítið áberandi núna undanfarin ár hjá erlendum ferðamönnum en Íslendingar eru þarna líka,“ segir Sævar Helgi.

Hvað finnst þér um að svona margir noti ekki bílbelti að staðaldri?

„Það er bara sorglegt því þetta er eitt öflugasta öryggistæki sem við höfum í umferðinni og hefur verið til margra ára,“ segir Sævar Helgi.
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV