Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Jarðskjálfti upp á 3,3 skammt frá Grindavík

09.07.2020 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir
Jarðskjálfti upp á 3,3 varð klukkan 16:12 í dag um 3,5 km norðaustur af Grindavík. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftans hafi orðið vart í Grindavík og Reykjanesbæ. Ekki er útilokað að fleiri skjálftar fylgi í kjölfarið.

Skjálftinn er sá stærst sem orðið hefur á svæðinu frá 13. júní, en sá var 3,5 að stærð.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálftann nú hafa orðið á svipuðum slóðum, suðaustur af Þorbirni. „Þetta er sama svæði og svipuð virkni og hefur verið undanfarna mánuði,“ segir hann.

Skjálftavirkni hefur verið viðvarandi á svæðinu undanfarna mánuði í tengslum við aflögun vegna kvikuinnskota í jarðskorpunni. Segir Einar Bessi að talið sé að þarna sé á ferð þriðja kvikuinnskotið á svæðinu frá því í upphafi þessa árs.

Það bendi þó ekkert til þess að lýkur hafi aukist á eldgosi. „Þetta hefur komið í lotum hjá okkur,“ segir hann og kveður ekki útilokað að fleiri skjálftar fylgi í kjölfarið.