Mynd: Gréta S. Guðjónsdóttir

Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.
Í gæsluvarðhaldi til 6. ágúst vegna brunans í Vesturbæ
09.07.2020 - 15:48
Karlmaður á sjötugsaldri var í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í fjórar vikur, til 6. ágúst, á grundvelli almannahagsmuna. Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi frá 26. júní vegna gruns um aðild að eldsvoða í íbúðarhúsi á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs 25. júní.
Gæsluvarðhaldið var að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á brunanum. Þetta er í þriðja skiptið sem maðurinn er úrskurðaður í gæsluvarðhald, fyrri tvö skiptin voru í viku í senn.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að rannsókninni miði vel áfram, en ekki sé hægt að gefa frekari upplýsingar að svo stöddu.
Þrír létust í brunanum og þrír voru handteknir vegna brunans, þar af tveir á vettvangi. Tveimur þeirra var fljótlega sleppt. Sá þriðji, karlmaður á sjötugsaldri sem bjó í húsinu, var handtekinn við sendiráð Rússlands í Garðastræti skömmu eftir að eldurinn kom upp. Hann var úrskurðaður í sjö daga gæsluvarðhald daginn eftir brunann, sem síðar var aftur framlengt um sjö daga og síðan um fjórar vikur í morgun.