Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hálft ár af kórónuveiru

09.07.2020 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage
Hálft ár er frá því að stjórnvöld í Kína og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin vöruðu fyrst við þá óþekktum lungnasjúkdómi sem greinst hafði í Wuhan-héraði. Síðan þá hafa að meðaltali 3000 manns dáið á degi hverjum í farsóttinni.

Rannsókn er hafin á að því er virðist óþekktri lungnabólguveiru sem yfir 40 manns hafa orðið veikir af í borginni Wuhan í Kína. Kínverskir netverjar óttast að veiran gæti tengst öndunarfærasjúkdómnum Sars, sem varð 700 að bana um allan heim eftir að hann dreifðist frá Kína. 

Eitthvað á þessa leið hljómaði frétt frá 4. janúar. Fimm dögum síðar greindi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin frá niðurstöðum frá Kína um að lungnabólguveiran sem þar hefði greinst væri að öllum líkindum afbrigði af kórónuveiru. Í dag er hálft ár frá þeirri tilkynningu. Þá þótti ekki ástæða til að vara við ferðalögum til og frá Kína. Það átti þó eftir að breytast. 

Hér á landi var grannt fylgst með gangi mála, en lítil ástæða þótti til að hafa áhyggjur framan af

Veiran var kölluð ýmsum nöfnum framan af, en á ráðstefnu sóttvarnasérfræðinga í Sviss í febrúar komst niðurstaða í málið. 

Að athuguðu máli var ákveðið að kalla hana Covid-19, co fyrir corona, vi fyrir vírus og d fyrir disease.

Þannig er hún hvorki kennd við stað, þjóð eða dýrategund. 
Alþjóðaheilbrigðisstofnuninhafði þá þegar lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna veirunnar. 

Um þrjú þúsund dauðsföll á dag

Veiran breiddist fyrst hratt út í Kína. Um miðjan febrúar voru yfir 70 þúsund smit greind þar en einungis nokkrir tugir í nærliggjandi löndum í Asíu. Þá greindust næst flest smit í heiminum um borð í skemmtiferðaskipinu Diamond Princess. Ítalía, Spánn og síðar Bandaríkin urðu næstu lönd þar sem smitum fjölgaði mjög hratt og undir lok mars höfðu löndin þrjú tekið fram úr Kína í fjölda greindra tilfella. 

Af þeim ríflega 12 milljónum sem greinst hafa með kórónuveiruna í heiminum á þessu hálfa ári eru yfir þrjár milljónir í Bandaríkjunum. Næst flest smit hafa greinst í Brasilíu eða 1,7 milljónir.

Kórónuveiran hefur dregið 550 þúsund jarðarbúa til dauða á síðustu sex mánuðum, en það eru um 3000 manns á dag.