Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gefur lítið fyrir skýringar Áslaugar Örnu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ritað opið bréf til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Í bréfinu er hún hvött til þess að hverfa frá áformum um að loka fangelsinu á Akureyri.

Logi birtir bréfið á vef Vísis í hádeginu í dag. Þar tilgreinir hann nokkrar ástæður fyrir því að falla eigi frá áformum um lokun.

„Þetta fangelsi er einstaklega gott"

 „Sko í fyrsta lagi virðist þetta ekki vera skoðað með heildstæðum hætti. Það getur vel verið að Fangelsismálastofnun geti sýnt fram á hagkvæmni með einhverjum hætti en kostnaðurinn kemur þá bara fram annars staðar. Svo finnst mér gleymast aðal atriðið í þessu máli og það er auðvitað fangelsisþjónstan sjálf og betrun fangana. Það hefur komið skýrt fram hjá Guðmundi Inga, formanni afstöðu að þetta fangelsi er einstaklega gott og starfsfólkið frábært," segir Logi.

Innanhúsvandamál eða ásetningur að undirkeyra

Meðal þess sem dómsmálaráðherra hefur bent á er að nýting fangelsisins hafi verið undir 80 prósentum. Logi gefur lítið fyrir það. 

„Nú ætla ég bara að leyfa mér að fullyrða það að það sé tvennt sem komi til greina. A, að það sé einhver innanhúss vandamál hjá Fangelsismálastofnun sem gerir það að verkum að fangelsið hér er ekki fullnýtt. Eða B sem er nú enþá óhuggulegri hugsun. Það er að menn séu hreinlega vitandi vits að undirkeyra fangelsið til að geta sýnt fram á að það sé hagkvæmt að leggja það niður."