Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

ESA samþykkir fjölmiðlastyrk íslenskra stjórnvalda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur samþykkt áform íslenskra stjórnvalda um fjárhagsstuðning fyrir einkarekna fjölmiðla vegna kórónuveirufaraldursins. Menntamálaráðherra gaf út reglugerð þessa efnis síðasta föstudag.

Frá því kórónuveirufaraldurinn reið yfir hefur fjárhagur einkarekinna fjölmiðla farið versnandi vegna samdráttar í auglýsingatekjum, en aðstæður á fjölmiðlamarkaði voru erfiðar fyrir, m.a. vegna breyttrar hegðunar neytenda með tilkomu samfélagsmiðla.

Þrátt fyrir það, segir í frétt á vef EFTA, hafa íslenskir fjölmiðlar haldið fullri starfsemi í gegnum kórónuveirufaraldurinn til að tryggja stöðugt upplýsingaflæði til almennings. Fjölmiðlar hafa hins vegar ekki haft sama möguleika og aðrar starfsgreinar að nýta sér stuðningsaðgerðir stjórnvalda.

Stjórnvöld setja 400 milljónir króna í að styrkja einkarekna fjölmiðla vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19 faraldursins. Samkvæmt reglugerð menntamálaráðherra getur hvert fjölmiðlafyrirtæki fengið allt að fjórðung af launum og verktakagreiðslum vegna fréttamiðlunar endurgreiddan, upp að eitt hundrað milljóna króna hámarki.