Brúðguminn hafði ekki hugmynd um brúðkaupið

Mynd: Guðný Elíasdóttir / Facebook

Brúðguminn hafði ekki hugmynd um brúðkaupið

09.07.2020 - 12:29

Höfundar

„Ég hefði þvegið mér um hendurnar ef ég hefði vitað að ég væri að fara að gifta mig,“ sagði Jökull Helgason við prestinn þegar hann gekk óvænt í það heilaga með sinni heittelskuðu, Guðnýju Elíasdóttur, um helgina.

Það óvenjulegasta við brúðkaup Guðnýjar Elíasdóttur og Jökuls Helgasonar var að brúðguminn hafði ekki hugmynd um að hann væri að fara að gifta sig þegar faðir brúðarinnar leiddi hana inn í kirkjuna og brúðarvalsinn hljómaði. Brúðurinn ákvað þetta, að brúðgumanum forspurðum, klukkan hálfeitt nóttina áður í hestaferð sem hjónin voru í ásamt fríðu föruneyti.

Með þeim í ferðinni voru meðal annars tónlistarmennirnir Helga Bryndís Magnúsdóttir og Atli Guðlaugsson sem léku tónlist fyrir ferðafélagana í Tjarnarkirkju á þriðja degi ferðarinnar, og varð Guðný svo snortin yfir flutningnum og aðstæðunum að hún gaukaði því að þeim Helgu og Atla að það gæti verið gaman að gifta sig þarna. Þau tóku hana heldur betur á orðinu og um nóttina lögðu þau á ráðin um að hrinda brúðkaupinu í framkvæmd. „Mér finnst gaman að stríða Jökli svo ég var ekkert að segja honum frá þessu en svo voru öll börnin með okkur nema eitt, það pínulítið böggaði mig að hún væri ekki með, tvisturinn okkar,“ segir Guðný. „En ég hafði samband við hana og henni fannst það stórgóð hugmynd svo við bara, ég skellti mér á þetta!“

Stóri dagurinn rann upp og hópurinn reið yfir sandana. Þau voru orðin skítug upp fyrir haus þegar komið var að kirkjunni. Jökull byrjaði að járna hestana fyrir utan kirkjuna eins og planað var en svo sest hann inn að verki loknu þar sem hann stóð í þeirri trú að hann væri að fara á tónleika. Guðný og faðir hennar biðu fyrir utan en svo bætist presturinn í hópinn og feðginin ganga inn kirkjugólfið undir brúðarmarsinum. Þá fór Jökull að átta sig á að það væri eitthvað að gerast sem honum hefði ekki verið sagt frá. „Það datt eiginlega af honum andlitið,“ segir Guðný og hlær. Þau feðginin setjast við altarið og Jökull horfir á þau ringlaður. Guðný biður hann að koma en hann er engu nær. „Ég, á ég að koma? Spyr hann. Heldurðu að ég sé að fara að giftast einhverjum öðrum?“ spyr Guðný á móti. 

Jökull áttaði sig og athöfnin hófst en það rann upp fyrir Guðnýju að það vantaði hringa. „Þá var pabbi búinn að flétta hringa úr rafmagnsgirðingarbandi,“ segir Guðný fegin. En þótt Jökull væri himinlifandi yfir hugmyndinni viðurkenndi hann fyrir prestinum að hann hefði undirbúið sig aðeins ef hann hefði vitað af áformunum. „Ég hefði þvegið mér um hendurnar ef ég hefði vitað að ég væri að fara að gifta mig,“ segir hann við viðstadda og hlær. 

Hjónin hafa verið saman í rúm fjögur ár og margir hafa spurt Guðnýju hvort það hafi hvarflað að henni að Jökull myndi hreinlega segja nei. „Ég var að ræða þetta við hann um daginn og veistu, það hvarflaði ekki að mér í eina sekúndu,“ segir Guðný. 

Rætt var við Guðnýju Elíasdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Myndlist

Ekki hamlandi að vanta þrjá fingur

Menningarefni

„Þá fattaði ég að ég væri hvít og ekki eins og hinir“

Menningarefni

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað