Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brim fjárfestir fyrir 13,5 milljarða á Grænlandi

09.07.2020 - 14:02
Mynd með færslu
 Mynd: Mette Kristensen - KNR
Brim hf. hefur gengið frá kaupum í grænlenska sjávarútvegsfyrirtækinu Arctic Prime Fisheries (APF). Fjárfesting Brims er samtals um 85 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 13,5 milljörðum íslenskra króna. Fjárfestingin er í formi hlutafjárkaupa, fjármögnunar og skipakaupa. Hlutur Brims í félaginu er 16,5 prósent.

Á vef fyrirtækisins segir að markmið fjárfestingarinnar sé að „breikka grundvöll starfsemi Brims, efla samstarf við Arctic Prime Fisheries á Suður-Grænlandi um veiðar, þróun á hátæknivinnslu og nýta verðmæta reynslu Brims á sviði umhverfismála og samfélagslegrar ábyrgðar.“

Kristján Þ. Davíðsson, stjórnarformaður Brims, segir í samtali við fréttastofu að tækifærin á Grænlandi séu fjölmörg. Hann segir að fyrirtækið sé með kvóta í þorski, makríl, síld auk karfa og grálúðu. Alls eru aflaheimildir félagsins 10.000 tonn af botnfiski en 18.000 tonn uppsjávarfiskjar. Veiðarnar fara aðallega fram á Grænlandssundi og suður af Grænlandi. 

Brim hf. stofnaði dótturfélag í Grænlandi síðasta haust og viðræður við AFP hófust í kjölfarið. AFP var stofnað 2006 og stundar veiði og vinnslu og Suður- og Austur Grænlandi. Fyrirtækið hefur fram að þessu gert út einn frystitogara og eitt línuskip. Það starfrækir fiskvinnslur í bæjunum Nanortalik, Qaqortoq, Narsaq og Kuummiut.

Kristján telur að mikil tækifæri séu til frekari þróunar í grænlenskum sjávarútvegi. Aðspurður hvort fleiri fjárfestingar í sjávarútvegi í Grænlandi séu á döfinni segir hann að það muni koma í ljós með tíð og tíma.