Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Börn Brittu Nielsen dæmd í fangelsi

09.07.2020 - 12:37
Mynd með færslu
Britta Nielsen kemur fyrir dóm í Suður Afríku Mynd:
Börn hinnar dönsku Brittu Nielsen voru í morgun dæmd í eins og hálfs til þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hylma yfir fjárdrátt móður sinnar. Þyngsta dóminn fékk yngsta dóttir Nielsen, sem talin er hafa fengið hæstu fjárhæðirnar frá móður sinni. Börnin hafa öll áfrýjað dómnum.

Britta Nielsen var fyrr á þessu ári dæmd til rúmlega sex ára fangelsisvistar fyrir umfangsmikinn fjárdrátt úr sjóðum danska félagasmálaráðuneytisins, þar sem hún starfaði allt frá árinu 1977. Fjársvikin eiga sér fáar ef nokkar hliðstæður í danski sögu svo vitað sé en Nielsen stal meira en 100 milljónum danskra króna, sem er um tveir milljarðar íslenskra króna. Um helmingur þess er talinn hafa runnið til barna hennar.

Skömmu eftir að dómur féll hófust réttarhöld yfir börnum Nielsen, Saminu, Jamillu og Jimmy Hayat fyrir að eiga hlutdeild í fjársvikum móður sinnar. Þau eru öll á fertugsaldri en réttarhöldin snerust meðal annars um hvort börnin hefðu vitað að peningarnir sem mamma þeirra gaf þeim, meðal annars til að kaupa sportbíla og veðhlaupahesta, hefðu verið illa fengnir. 

Fjallað var um réttarhöldin yfir börnum Nielsen í Heimskviðum í mars. 

Réttarhöldunum var frestað á meðan kórónuveirufaraldurinn lék Dani grátt en í morgun kunngjörði dómari að börnin skyldu öll hljóta refsingu fyrir að hylma yfir og nýta fjárdrátt móður sinnar. Þyngsta dóminn fékk yngsta dóttir Nielsen, Samina, 3 og hálft ár, en hun fékk mestan pening þeirra systkina frá móður sinni. 

Hver er Britta Nilsen?

Hún heitir Anna Britta Troelsgaard Nielsen, og gengur í dönskum miðlum alla jafna undir nafninu Britta Nielsen. Í október árið 2018 bárust fyrst fréttir af því hér á landi að dönsk kona hefði verið handtekin í Suður Afríku, grunuð um fjársvik. Í fyrstu fréttum af málinu kom fram að konan hefði verið útskurðuð gjaldþrota fyrr í sama mánuði, hún hafi verið eftirlýst af yfirvöldum og flúið land. Mörg sperrtu eyrun þegar upphæðirnar voru nefndar, konan var sökuð um að hafa dregið sér hið minnsta 111 milljónir danskra króna úr opinberum sjóðum. Það eru um tveir milljarðar íslenskra króna. 

Britta Nielsen hóf störf hjá danska félagsmálaráðuneytinu árið 1977 og starfaði þar allt þar til upp komst um svikin. Það gerðist skömmu eftir að hún hafði fengið sérstaka stafsaldursviðurkenningu eftir 40 ár í starfi. Á hennar könnu var starfsemi hjá sjóði innan ráðuneytisins, sem sér um fjárhagsaðstoð fyrir þau sem hana þurfa með milligöngu sveitarfélaga í Danmörku.

Sú staðreynd fannst mörgum einmitt svíða heldur sárt, að þjófnaðurinn hefði verið úr sjóðum sem ætlaðir eru þeim sem þurfa virkilega á aðstoð að halda. 

Fyrst komst upp um svik hinns dygga starfsmanns þegar bókhaldari hjá borgarstjórn Hróarskeldu í Danmörku gerði athugasemdir við færslur sem tengdust danska fjármálaráðuneytinu. Það var haustið 2017. Fljólega kom í ljós að það voru ekki bara þessar tilteknu færslur sem stemmdu ekki við fjárhagsáætlanir ráðuneytisins. Í ljós komu reglulegar millifærslur úr títtnefndum sjóðum inn á reikninga Brittu Nielsen. Handtökuskipun var gefin út á hendur Nielsen í lok september árið 2018, og hún var handtekin eftir sex vikur á flótta í Suður Afríku.  

Saklausir þjófsnautar eða vitorðsmenn?

Málið hefur vakið gríðarmikla athygli í Danmörku, í landi sem státar sig af jöfnuði. Þar greiðir fólk háa skatta, en fær í staðinn að búa í velferðarsamfélagi sem sér um sína. Að samborgari hafi rænt tveimur milljörðum íslenskra króna úr þeirra sameiginlegu sjóðum til að splæsa í veðhlaupahesta og annan lúxusvarning þykir ekki bara siðlaust, heldur velta mörg fyrir sér hvernig í ósköpunum svona hafi geta gerst. Það sé ekki bara við hina fingralöngu Brittu Nielsen að sakast, heldur eftirlitsstofnanir sem virðast hafa steinsofið á verðinum. 

Og þegar búið var að velta vöngum yfir glæpum Nielsen var næsta mál á dagskrá að velta fyrir sér sekt eða sakleysi barna hennar. Í réttarhöldunum yfir þeim var meðal annars leitast við að svara spurningunni hvort þau hafi átt aðild að brotum móður sinnar. Hefðu börnin, sem núna eru öll á fertugsaldri, ekki mátt vita að ráðuneytisststarfsmaðurinn móðir þeirra væri ekki með eðlilegum hætti borgunarmanneskja fyrir lífstíl fjölskyldunnar? 

Sjónvarpsþátturinn Kriminelt á DR helgaði heilan þátt rannsókninni á börnum Brittu Nielsen. 

Börnin eru þrjú, Jamilla er 39 ára, Jimmy 37 ára og Samina 32 ára. Þau hafa alla tíð haldið fram sakleysi sínu, að þau hafi með öllu verið grunlaus um hvaðan auðæfi móður þeirra komu. 

Veðhlaupahestar og sportbílar

Réttarhöldin yfir börnunum voru ekki óumdeild. Verjendur þeirra sögðu engin óyggjandi gögn sanna að börn Brittu hafi vitað hvaðan peningarnir komu, að þeir hafi verið fengnir með öðrum hætti en að mæta til vinnu og sinna sínum störfum réttu megin við lögin. Í dönskum lögum eru hins vegar ákvæði sem heimila að einstaklingur sé sóttur til saka fyrir að vera þjófsnautur, sannist það að honum hefði mátt vera ljóst á aðstæðum að peningarnir sem notaðir voru hafi ekki geta verið fengnir öðruvísi en með ólögmætum hætti. 

Fréttaskýringahlaðvarpið Genstart á DR fjallaði um réttarhöldin yfir börnum Brittu Nielsen í mars síðastliðnum. Þátturinn ber yfirskriftina Hversu barnaleg voru börn Brittu Nielsen? 

Það kenndi ýmisa grasa í réttarhöldunum, og sumt sem þar kom fram næsta reyfarakennt. Þannig voru systurnar tvær spurðar fyrir dómi út í viðkomu í bankahólfi móður sinnar. Það var þann  24. september 2018, um nákvæmlega sama leiti og móðir þeirra stakk af til Suður Afríku, og varð eftirlýst af dönskum stjórnvöldum. Hvað voru þær að vilja í þetta bankahólf og hvað var þar að finna? Þær systur sögðust hins vegar hafa komið við í bankahólfinu á leið í verslunarferð í verslunarmiðstöðina Fields. Ekki til að koma neinu undan heldur til að sækja skartgripi sem eldri systirin ætlaði að bera í brúðkaupi í Þýskalandi skömmu síðar. 

Svona var farið ofan í saumana á samskiptum, ferðalögum, námi, tómstundum og ekki síst eyðslu barnanna þriggja í yfirheyrslum yfir þeim öllum. 

Einkasonurinn Jimmy var handtekinn í Suður Afríku í október árið 2018 og hefur síðan setið í gæsluvarðhaldi. Hann naut umtalsvert góðs af undanskotum móður sinnar, sem hélt honum að mestu uppi meðan hann lærði til kokks í Suður Afríku. Ákæruvaldinu reiknast til að Jimmy hafi þegið um 200 milljónir íslenskra króna frá móður sinni meðan á námi hans stóð. En hann var ekki bara ákærður fyrir að þiggja fé fyrir skólagöngu sinni. Honum var líka gefið að sök að hafa hylmt yfir með móður sinni, skotið yfir hana skjólshúsi þegar hún var á flótta undan yfirvöldum í september árið 2018. Hann hafi hjálpað henni að fara huldu höfði einhverjar af þeim sex vikum sem hún var eftirlýst auk þess að lána henni peninga. 

Jimmy var handtekinn skömmu á undan móður sinni í Suður Afríku og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan því löggæsluyfirvöld töldu líklegt að hann myndi reyna að flýja. Málaferlin gegn Jimmy undur reyndar talsvert uppá sig. Jimmy nefnilega einnig ákærður fyrir vörslu barnakláms, sem fannst í tölvu hans þegar hann var handekinn þarna í fyrrahaust í Suður Afríku. 

Yngsta dóttirin fékk mest

Flestum þykir það líklega heldur raunsnarlegur námsstyrkur, 200 milljónirnar sem Jimmy fékk frá móður sinni til að læra að verða matreiðslumaður. Þær eru þó umtalsvert rausnarlegri upphæðirnar sem systir hans, Samina, fékk frá móður sinni til að sinna sínum hugarefnum. Nánar tiltekið, meira en 740 milljónir íslenskra króna. En þær Samina og móðir hennar, Britta, deildu líka áhugamáli sem er ekki alveg ókeypis. 

Samina er 32 ára, og segir að þær móðir hennar hafi deilt áhuga á hestum. Mikill hluti peninganna var millifærður á reikninga Saminu í Þýskalandi og Hollandi til að standa straum af kostnaði af fyrirtækjum sem dóttirin rak þar sem sneru að hrossakaupum. Enda voru útgjöld tengd hestamennskunni nokkuð sem kom talsvert við sögu í réttarhöldunum yfir Saminu. 

Hún bjó í Þýskalandi í nokkur ár og sinnti hestamennsku, flutti svo til Hollands. Þá bárust þau skilaboð frá mömmunni að nú þyrftu þær líka að fara að spara peninga, ef Britta ætti ekki að byrja að klípa af ævisparnaðinums sem ætti að duga sem eftirlaun. Það vildu þær ekki. 

Í vitnaleiðslum sagðist Samina aldrei hafa velt fyrir sér hvaðan peningarnir komu. Hún segist einfaldlega hafa fengið að vera barn lengi. 

Þá var hún spurð út í kaup á bíl, mamma hennar vildi kaupa handa henni bíl svo hún fengi að nota sinn sjálf. Fyrir valinu varð enginn skrjóður heldur splæstu þær mæðgur í  Audi RS5 sem kostar á fjórtándu milljón íslenskra króna. Samina sagðist hafa verið himinsæl með nýja bílinn, en ekkert velt fyrir sér fjármögnun á honu. Það hafi mamma hennar séð um, eins og allt sem við kom fjármálum heimilisins. 

Þau svör dótturinnar eru í takt við vitnisburð systkinanna fyrir dómi. Þau hafi sannarlega notið góðs af fjárdrætti móður sinnar en enga hugmynd haft um að féð væri illa fengið. Þau hafi lengst af staðið í þeirri trú að peningarnir væru arfur sem faðir þeirra hefði fengið eftir fjölskyldu sína. 

Eyðslan jókst við andlát fjölskylduföðurins

Faðir barnanna og eiginmaður Brittu kom talsvert við sögu í réttarhöldunum yfir eiginkonunni, og nú börnunum. Hann hét Khursheed Hayad og lést eftir hjartaaðgerð árið 2005. Samina sagði fyrir rétti að eyðsla fjölskyldunnar hafi aukist eftir að hann féll frá. Hann hafi verið sparsamur maður, sem meira að segja hafi skipt sokkum eða skyrtum sem hann fékk að gjöf, ef það kostaði of mikið. 

Neysluhættir fjölskyldunnar breyttust eftir að faðirinn féll frá, eyðslan varð meiri og hömlulausari sem renndi stoðum undir þá kenningu barnanna að faðir þeirra hefði skilið eftir sig mikil auðæfi. 

Britta Nielsen greindi frá því í sínum réttarhöldum að hún og eiginmaðurinn hennar heitinn hefðu keypt sér alltof dýrt hús til að hún gæti hugsað um veika foreldra sína.  Þau hefðu ekki haft mikið á milli handanna til að byrja með og síðan átt í erfiðleikum með að standa í skilum. Það hefði verið þá sem hún hafði farið að draga sér fé. Hún hafi einfaldlega fallið fyrir freistingunni. 

Eins og nafn Brittu kom mikið við sögu í réttarhöldunum yfir börnum hennar, komu þau sömuleiðis við sögu í réttarhöldunum yfir henni. Þannig neitaði hún ávalt að svara öllum spurningum tengdum börnunum og þeirra nýtingu á illa fengna fénu. Hún vildi ekki segja neitt sem gæti komið sér illa fyrir þau. Þá sagði hún eitt sinn fyrir dómi að sjálf hafi hún átt ömurlega barnæsku. Hún hafi þráð að geta veitt börnunum sínum betri tækifæri en hún fékk. Verjandi Brittu segir réttarhöldin nú hafi haft mikil áhrif á hana, hún sé eyðilögð yfir því að börnin hennar hafi þurft að sitja sakamannabekknum fyrir hennar gjörðir. 

Samina var í morgun dæmd í sex og hálfs árs fangelsi, Jimmy Hayat fékk tveggja og hálfs árs dóm og systir þeirra, Jamilla, fékk 18 mánaða dóm. Þau hafa öll ákveðið að áfrýja dómum sínum.