Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bankarnir aldrei lánað meira fyrir íbúðarkaupum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Hrein ný útlán íslensku viðskiptabankanna vegna íbúðarkaupa hafa aldrei verið meiri í einum mánuði, eins og þau voru í maí síðastliðnum. Þá námu ný útlán bankanna 22,3 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem kom út í morgun. Þar segir jafnframt að meðalsölutími í búða hefur styst frá því í fyrra og að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 5,5 prósent á milli ára í maímánuði. Þinglýstum kaupsamningum á landsbyggðinni fjölgar á ný.

Óverðtryggð útlán allsráðandi

Ný óverðtryggð útlán vegna íbúðarkaupa með breytilegum vöxtum voru allsráðandi í maí. Þau námu samtals 27,4 milljörðum króna. Uppgreiðslur voru meiri en útlán fyrir lán á föstum vöxtum, sama hvort um verðtryggð eða óverðtryggð lán var að ræða.

Lífeyrissjóðir lánuðu hins vegar minna en í fyrri mánuði. Hrein ný útlán lífeyrissjóða til heimilanna drógust saman frá apríl til maí um 38 prósent. Það er þó aðeins minni samdráttur en milli mars og apríl þegar lífeyrissjóðir lánuðu 78 prósent minna.

Skörp lækkun á vöxtum á óverðtryggðum lánum er í skýrslunni sögð vera ástæða þess að neytendur sæki meira í óverðtryggð lán til að fjármagna íbúðarkaup sín. Lægstu vaxtakjör á óverðtryggðum lánum hafa lækkað um 2,75 prósentustig frá því í júlí í fyrra.

Verðtryggðir vextir hafa lækkað minna, hvort sem er hjá viðskiptabönkum eða lífeyrissjóðum. Hjá bönkunum hafa lægstu vaxtakjör lækkað um eitt prósentustig frá því í júlí í fyrra. Hjá lífeyrissjóðum hafa vextir verðtryggðra lána lækkað enn minna.