Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Árangurslausir fundir í Herjólfsdeilunni

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Enginn árangur varð á samningafundi Sjómannafélags Íslands og Herjólfs ohf. í morgun, segir Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélagsins. Meirihluti áhafnar Herjólfs er í félaginu.

Höfnuðu því að fjölga þernum

Kröfur Sjómannafélagsins eru meðal annars þær að stytta minnka vinnuskyldu og fjölga þernum um borð. Jónas segir að félagið hafi í gær lagt fram tilboð um að fjölga um eina þernu í hverri áhöfn en fresta viðræðum um vinnuskyldu og þar með boðaðri vinnustöðvun í næstu viku. Á það hafi ekki verið fallist á fundinum í morgun. Þrjár þernur eru í áhöfn. Jónas segir að á árum áður hafi verið tvær þernur til viðbótar í áhöfn á sumrin vegna álags.

Með ólíkindum að það sé ekki vilji til að semja um styttingu vinnutíma

Í nýjum Herjólfi sé álagið á þernur meira. Jónas segir með ólíkindum að ekki sé hægt að semja um minni vinnuskyldu, sem nú sé allt að 190 stundir á mánuði, á sama tíma og búið sé að semja um vinnutímastyttingu við þorra landsmanna.