Vilja að komandi kynslóðir þekki Góðar fréttir

Mynd: Góðar fréttir / Góðar fréttir

Vilja að komandi kynslóðir þekki Góðar fréttir

08.07.2020 - 16:06
Bjarki Steinn Pétursson og Saga Ýr Nazari eru stofnendur fréttamiðilsins, Góðar fréttir. Þau ætla einungis að einblína á jákvæðar fréttir bæði innan- og utanlands. Þau hafa fengið mikið af góðu fólki með sér í lið sem vinnur nú að fyrsta tölublaði sem von er á í september.

Hugmyndin að Góðum fréttum kviknaði þegar Bjarki Steinn og Saga Ýr sátu á spjalli í heitum potti sumarið 2019. Þau ræddu almennt um fréttaumfjöllun og hve miklar skoðanir fólk hefur á alheiminum.

„Við heyrum stanslaust svo ótrúlega mikið af kvörtunum varðandi mannkynið eða samfélagið og við fórum að velta því fyrir okkur hvernig það væri ef það væri bara fréttamiðill sem myndi einungis dreifa áfram jákvæðum og uppbyggjandi fréttum. Þetta var svona lauflétt spjall og okkur fannst þetta vera bara sjúklega góð hugmynd,“ segir Saga Ýr.

Þau segja að þau hafi oft fengið mikið af góðum hugmyndum en aldrei farið svo alla leið með hugmyndina og framkvæmt hana. „Þetta var ekki bara að við vildum láta gott af okkur leiða og prófa þetta þar sem það er rosa mikil vöntun á jákvæðum fréttum heldur að þetta var líka til þess að sanna fyrir okkur að það er einmitt hægt að fá einhverja hugmynd og framkvæma hana,“ segir Saga Ýr.

Þau byrjuðu tvö að vinna að þessu verkefni en höfðu svo samband við fólk sem þau héldu að gæti haft áhuga á að vinna að þessu verkefni með þeim og þá voru þau orðin fimm. „Við byrjuðum að fá fólk til að funda með okkur sem hafði reynslu í fréttamiðlum og tímaritum og miðla reynslu. Þannig við vorum mjög lengi að reyna byggja upp einhvers konar beinagrind, það var alveg eitt og hálft ár.“ Þau ákváðu svo að stækka teymið og fengu margt fólk í viðtal og í dag eru þau 15 í heildina sem koma að verkefninu.

Mynd með færslu
 Mynd: Góðar fréttir
Teymið sem kemur að Góðum Fréttum

Teymið vinnur nú á fullu að fyrsta tölublaðinu. Þau vilja ekki gefa of mikið upp um við hverja þau ræða því þau vilja að fólk verði spennt að lesa blaðið. En gáfu þó upp að forseti Íslands Guðni Th. verður í fyrsta tímaritinu. „Þannig það er rosa mikið af flottum fréttum og alls konar málefni sem að við erum að koma inn á sem hefur kannski verið fjallað um en á neikvæðan hátt. Við erum að taka twist á alls konar fréttir og svo líka glænýjar fréttir sem fólk  hefur ekki fengið að heyra af,“ segir Bjarki Steinn.

Með fréttamiðlinum Góðar fréttir vilja þau ná jafn miklu vægi og stórir fréttamiðlar. „Markmiðið er að koma jafnvægi í fréttaflutning þannig að við getum verið fyrirmynd fyrir aðra fjölmiðla,“ segir Bjarki Steinn. „Okkur langar að Góðar fréttir sé hugtak sem komandi kynslóðir þekki.“

Teymið sem kemur að Góðum fréttum safnar þessa dagana fyrir rekstri síðunnar á Karolina Fund. „Margt smátt gerir eitt stórt og við yrðum ævinlega þakklát ef fólk sér sér fært um að styrkja okkur,“ segja Bjarki og Saga. Hægt er að kynna sér Góðar fréttir á Karolina Fund.

Þú getur hlustað á viðtalið í heild sinni við Bjarka Stein og Sögu Ýr í spilaranum hér fyrir ofan.