Þarf að vera 14 daga utan Schengen fyrir Bandaríkjaferð

08.07.2020 - 16:37
Ásta Júlía Grímsdóttir
 Mynd: Aðsent
Það virðist ekki vera hlaupið að því fyrir þá íslensku nema sem stunda nám í Bandaríkjunum að komast þangað. Körfuboltaleikmaðurinn og háskólaneminn Ásta Júlía Grímsdóttir er þessa dagana að leita leiða til að komast í skólann.

Greint var frá því í fréttum í gær að landvistarleyfi erlendra námsmanna í Bandaríkjunum verði fellt úr gildi fari námið alfarið fram á netinu. Harvard og MIT háskólarnir hafa báðir höfðað mál gegn bandarískum stjórnvöldum vegna þessa.

Nemendur við þá skóla þar sem nám fer að einhverju leyti fram í skólastofu ættu þó að halda landvistarleyfinu. Þeir háskólanemar sem búa innan Schengen-svæðisins fá hins vegar ekki að koma til Bandaríkjanna beint frá Schengen-ríki. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður, vekur athygli á raunum dóttur sinnar á Facebook í dag.

Ásta Júlía, dóttir Helgu Völu, er á öðru ári í sálfræði við Houston Baptist University og leikur jafnframt körfubolta með háskólaliðinu Huskies. Ásta Júlía, sem líkt og fjöldi annarra nemenda fór heim í kórónuveirufaraldrinum, var ekki farin að hugleiða brottför. Enda segir hún fæsta þá háskólanema sem hún þekkir vera á leiðinni til Bandaríkjanna í bráð.

„Svo bara allt í einu fæ ég símtal í gær og þarf þá að fara til Króatíu eða eitthvað svoleiðis í tvær vikur,“ segir Ásta í samtali við fréttastofu.

Þjálfari Huskies hefur gert öllum leikmönnum af öðrum uppruna en bandarískum að snúa aftur í skólann í ágúst svo nám og æfingar geti hafist á réttum tíma.

Ástæðan er að háskólanemum frá ríkjum innan Schengen er gert að hafa dvalið í ríki utan Schengen-svæðisins í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en þeir fá að koma til Bandaríkjanna. Ekki er gerð krafa um sóttkví á þeim tíma.

Auk Króatíu, hefur Ástu Júlíu verið bent á Serbíu, Tyrkland og Ástralíu sem mögulega staði utan Schengen.

Sjálf þekkir hún enga í þessum löndum, en þjálfarinn hefur lagt til að hún og bresk stúlka sem æfir með blakliðinu dvelji saman í Króatíu svo þær verði þar ekki einar.

Ekkert beint flug er frá Króatíu og bannað er að millilenda innan Schengen-svæðisins á leiðinni til Bandaríkjanna. Ásta segir þær því væntanlega þurfa að fljúga frá Istanbúl í Tyrklandi.

Hún er ekki sátt við tillöguna og finnst óvissan en vera mikil. „Ég þarf í rauninni að fara mánuði fyrr en ég ætlaði mér og þá einmitt til Texas þar sem ástandið er virkilega slæmt,“ segir Ásta en ríflega 10.000 smit voru í gær staðfest í Texas.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi