Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Þá fattaði ég að ég væri hvít og ekki eins og hinir“

Mynd: Fanney Bjargardóttir / Aðsend

„Þá fattaði ég að ég væri hvít og ekki eins og hinir“

08.07.2020 - 09:57

Höfundar

Snæfríður Fanney var eini hvíti nemandinn í grunnskólanum sínum í Harlem. Hún segir frá reynslu sinni í nýju hlaðvarpi sem var á dögunum valið á meðal þeirra ellefu bestu sem tóku þátt í hlaðvarpskeppni New York Times.

The New York Times efndi til hlaðvarpskeppni fyrr á árinu á meðal táninga í Bandaríkjunum og var íslensk stúlka, Snæfríður Fanney Bjargardóttir, ein þeirra sem báru sigur úr býtum. Hún var á meðal þeirra 1.300 sem sendu inn þátt og þótti hennar þáttur sérstaklega vel heppnaður. Fjallað er um hann í New York Times og hafa nú hátt í 800 þúsund manns hlustað á þáttinn. Hann ber heitið Reflection on a white childhood in black Harlem þar sem Snæfríður segir frá því þegar hún flutti sex ára til New York og var eini hvíti nemandinn í grunnskóla sínum. „Ég hef mkið verið að hugsa um líf mitt og skrifa niður minningar um tímann minn í Harlem,“ segir Fanney sem rak augun í tilkynningu um hlaðvarpskeppnina í miðjum heimsfaraldri þar sem hún var, líkt og flestir Bandaríkjamenn síðan faraldurinn hófst þar, að mestu innilokuð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Fanney Bjargardóttir - Aðsend
Bestu vinkonur í skólanum í Harlem

Þegar hún byrjaði í skólanum sex ára tók hún ekki eftir því að hún væri öðruvísi en aðrir og féll inn í hópinn. „En þegar leið á fór ég að taka eftir því. Þegar það var verið að kynna okkur sögu svartra í Bandaríkjunum var talað um hvað hvítt fólk hefði gert svörtu fólki og þá fattaði ég að ég væri sjálf hvít og ekki eins og hinir.“ Í skólanum leið henni samt vel og á þaðan góða vini og dýrmætar minningar. „Stundum vildu krakkarnir flétta hárið á mér því það var öðruvísi, en það var bara gaman.“

Hún segir það hafa haft góð áhrif á sig að alast upp í Harlem. „Núna hef ég reynslu af því að koma vel fram við aðra,“ segir hún og bætir því við að tímasetning hlaðvarpsins hafi heppilega verið í kringum ris mótmælaöldu í Bandaríkjunum eftir að George Floyd var myrtur, og því hafi umræðan um kynþáttamisrétti einmitt verið í algeymingi. „Núna þarf fólk að fatta að lífið fyrir Ameríkana er ekki eins fyrir alla. Þegar ég bjó í Harlem sá ég það alveg,“ segir Fanney. Í dag er hún flutt frá New York og býr í Kaliforníu í Turlock. Þar hefur mikið verið mótmælt upp á síðkastið og segist Fanney stolt af samborgurum sínum fyrir að láta í sér heyra og berjast fyrir réttlæti. „Ég er glöð að borgin mín taki þátt í þessu.“

Hún var ein heima hjá sér þegar hún fékk tölvupóstinn þar sem henni var tilkynnt að hlaðvarp hennar hefði þótt framúrskarandi og komist á þennan merkilega lista. „Það var mjög  góð tilfinning að vita að þessi saga er mikilvæg, það sem ég er að segja er mikilvægt. Ég er mjög glöð að margir hafi fengið tækifæri til að hlusta og vonandi læra eitthvað nýtt.“

Rætt var við Snæfríði Fanneyju í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hluti af samfélaginu eða staðalímynd?