Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segist bjartsýnn á lausn Herjólfsdeilunnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vegagerðin
Stjórn Herjólfs situr nú á fundi með fulltrúum skipverja ferjunnar og Sjómannafélags Íslands til að leita lausna á kjaradeilu þeirra. Sólarhrings vinnustöðvun skipverja lauk á miðnætti og önnur er fyrirhuguð í tvo sólarhringa frá miðnætti 14. júlí. Sú þriðja verður tveimur vikum síðar, í þrjá sólarhringa, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Fyrir fundinn sagðist Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs bjartsýnn á að samkomulag næðist.

Félagar í Sjómannafélagi Íslands, sem er eitt þeirra fimm stéttarfélaga sem áhöfn Herjólfs á aðild að, samþykktu aðgerðirnar í atkvæðagreiðslu í lok júní og nær vinnustöðvunin til háseta, bátsmanna og þjónustufólks um borð. Guðbjartur segir að laun skipverja séu á milli 800 þúsund og ein milljón á mánuði. Það sé mat eigenda Herjólfs að vel sé gert við starfsfólk og ekki komi til greina að ganga að kröfunum. 

„Ekki eins og þær voru kynntar í upphafi Það liggur alveg fyrir. Það er þá verið að gjörbreyta skipulagi í rekstri ferjunnar , fara úr þremur áhöfunum í fjórar og fækka vinnuskyldunni úr 20 dögum niður í 15 daga. Það þýðir bara 25% launahækkun. Þetta er bara alger umbylting á þeirri starfsemi sem við erum að reka í dag áferjunni. Þannig að því hefur bara verið hafnað. Það stendur ekki til,“ sagði Guðbjartur fyrir fundinn.

Hann sagði brýnt að lausn myndi finnast sem fyrst.

Eina samgöngutækið á milli lands og Eyja

„Það ríkir alltaf bjartsýni í Vestmannaeyjum sama hvað gengur á þannig að það er alveg ljóst að okkar verkefni er að halda þessari þjónustu og ferjunni í rekstri. Þetta er eina samgöngutækið sem gengur hér á milli lands og Eyja og við höfum skyldur gagnvart samfélaginu að ferja hér bæði fólk og vörur.“