Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir fangelsislokun setja löggæslu á NA-landi í uppnám

08.07.2020 - 16:38
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bæjarstjórn Akureyrar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri. Þetta gangi gegn yfirlýstri stefnu stjórnvalda í byggðamálum og sé gert án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu.

Í yfirlýsingu, sem bæjarstjórnin hefur sent frá sér, segir að stefna stjórnvalda hafi verið að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni og því skjóti það skökku við að fangelsismálayfirvöld taki einhliða og án nokkurs fyrirvara ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri og leggja þar með niður fimm störf í bænum. Bæjarstjórn krefst þess að stjórnvöld grípi tafarlaust í taumana og ógildi þessa ákvörðun.

Mikil samlegðaráhrif fangelsis og lögreglu

„Bent skal á að samlegðaráhrif í starfi lögreglunnar á Norðurlandi eystra og fangelsisins á Akureyri eru og hafa um áratugaskeið verið afar mikil. Fram til þessa hafa fangaverðir á vegum Fangelsismálastofnunar einnig sinnt föngum sem gista fangageymslur lögreglunnar vegna rannsóknar mála, ölvunar eða af ýmsum öðrum ástæðum,“ segir í yfirlýsingu bæjarstjórnar.

Ákvörðunin kalli á stóraukið fjármagn til löggæslu 

Verði ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri ekki afturkölluð, þurfi frá og með næstu mánaðamótum að jafnaði tveir af fimm lögreglumönnum á vakt að sinna fangavörslu flesta daga ársins. Þessi ákvörðun muni því að óbreyttu kalla á stóraukið fjármagn til löggæslu á Norðurlandi eystra en að öðrum kosti skerðist löggæsla á svæðinu svo um munar. Þá hafi lögreglan á Akureyri einnig með höndum eftirlit og útkallslöggæslu á Grenivík, Svalbarðseyri, í Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit og sveitum og þjóðvegum þar í kring. Það sé vandséð hvernig þrír lögreglumenn geta sinnt allri slíkri löggæslu í umdæminu.

Ólíðandi að taka slíka ákvörðun í trássi við stefnu stjórnvalda

„Bæjarstjórn Akureyrar telur með öllu ólíðandi að Fangelsismálastofnun geti í trássi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í byggðamálum og án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu tekið slíka ákvörðun um að flytja fimm störf af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og þar með sett löggæslu á svo stóru svæði landsins í algjört uppnám.“