Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Næsta skref að skoða rannsókn mála sem tengjast mansali

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Eitt af næstu skrefum er að skoða og rýna rannsókn mála þar sem grunur hefur leikið á að um mansal sé að ræða og athuga hvort sé kannski einhverja meinbugi að finna sem skýra af hverju þessi mál koma ekki til kasta ákæruvaldsins,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra þegar hún er spurð að því hvernig standi til að bregðast við ábendingum til íslenskra stjórnvalda frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um aðgerðir gegn mansali.

Áslaug Arna bendir á að mælt hafi verið fyrir um þetta í áhersluskjali stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali í mars 2019 og segir að Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari hafi umsjón með vinnunni.  

Ísland kemur illa út í alþjóðlegum samanburði 

Í síðustu viku kom út skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins um aðgerðir ríkja gegn mansali. Þar kemur fram að Ísland sé meðal þeirra ríkja þar sem stjórnvöld uppfylli ekki lágmarksskilyrði um aðgerðir í málaflokknum, en leggi sig þó fram um það. Meðal þess sem íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir í skýrslunni er að ekki hafi verið ákært í mansalsmálum. Rannsóknir á þessum málum taki of langan tíma og að illa sé staðið að því að safna sönnunargögnum. Þá séu vísbendingar um ófullnægjandi sérfræðiþekkingu innan ákæruvaldsins.  
 
Áslaug Arna segir í samtali við fréttastofu að unnið sé að endurskoðun á ákvæði hegningarlaga sem snýr að mansali og málið sé á þingmálaskrá fyrir næsta haust. Þá hafi verið séð til þess að mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar fái fjármagn í þeim tilgangi að styrkja og auka fræðslu á þeirra vegum um skipulagða brotastarfsemi. Ríkisstjórnin hafi veitt fimm milljónum króna til Rauða krossins til að auka fræðslu um mansal. 

Óvíst hvort hælisleitendur séu mansalsfórnarlömb 

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins segir einnig að ekki hafi verið nægilega vel skimað fyrir vísbendingum um mansal meðal viðkvæmra hópa á Íslandi; til dæmis hafi kvenkyns hælisleitendum frá Nígeríu og Ghana verði vísað úr landi án þess að gengið væri úr skugga um að þær væru ekki fórnarlömb mansals. 
 
Aðspurð hvort standi til að bregðast við þeirri ábendingu segir hún að í kjölfar útgáfu áhersluskjals stjórnvalda vegna mansals í mars árið 2019 hafi verið stofnað teymi innan Útlendingastofnunar með það að markmiði að vinna að ýmsum aðgerðum sem skjalið mælti fyrir um. Meðal annars standi til að „endurbæta verklag sem lýsir til hvaða aðgerða eigi að grípa innan stofnana sé einhver greindur sem hugsanlegt fórnarlamb og þá að reyna að bregðast við þessu“. Aðspurð hvort vinnan sé farin af stað segist hún ekki vita hvar vinnan stendur.  

Verkalýðshreyfingin gagnrýnir stjórnvöld 

Í viðtali við fréttastofu í síðustu viku sagði Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði ekki koma sér á óvart. Verkalýðshreyfingin hefði ýtt eftir aðgerðaáætlun gegn mansali í mörg ár en ljóst væri að pólitískur vilji væri ekki til staðar. Hún benti á að Ísland hefði undirgengist ákveðnar alþjóðlegar skuldbindingar, sem stjórnvöld hefðu ekki staðið við. Þá benti hún á að samið hefði verið um aðgerðir í þessum málaflokki í lífskjarasamningunum á síðasta ári. Hún sagði verst að ekki væri í gildi aðgerðaáætlun gegn mansali. 

Áhersluskjalið „nokkurs konar aðgerðaáætlun“ 

Aðspurð hvers vegna engin aðgerðaáætlun sé í gildi hér á landi, með tímasettum og fjármögnuðum aðgerðum segir Áslaug: „Í mars 2019 var kynnt áhersluskjal sem er auðvitað nokkurs konar aðgerðaáætlun. Það er áhersluskjal stjórnvalda í þessum aðgerðum“.  
 
Ráðherra segir að við undirbúning áhersluskjalsins hafi verið haft samráð við alla aðila og stofnaður formlegur samráðshópur. „Í áhersluskjalinu er kveðið á um aðgerðir, m.a. að koma á fót sérstakri samhæfingarmiðstöð. Það hefur verið gert núna. Bjarkarhlíð hefur verið falið það hlutverk og það er tilraunaverkefni til eins árs. Frá og með 1. julí“. Áslaug segir samning hafa verið gerðan um það og að verkefnið sé á borði félagsmálaráðherra.  
 
Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað lýst afstöðu sinni um að áhersluskjalið sé ekki aðgerðaáætlun, enda séu þar engar tímasettar aðgerðir og fjármagn fylgi ekki áherslunum. Aðspurð hvort hún sé ósammála því að ganga þurfi lengra og búa til sérstaka aðgerðaáætlun segir ráðherra: „Ef það þarf að skýra þetta áhersluskjal eitthvað frekar þá leggst ég ekki gegn því. Ég held það sé bara mikilvægt að hafa yfirsýn og í þessu skjali koma verkefnin skýrt fram. Þau eru sett í þrjá aðgerðahópa innan þessa stóra hóps sem kemur að samráðinu. Það er einstaklingur sem leiðir hvern af þessum hópum. Drífa leiðir einn hópinn. Og þegar tillögur koma svo inn í samráðshópa þá er oft hægt að ganga skörulega fram í að klára þær.“ 

Taldi útlendingalöggjöf auka hættu á mansali

Áslaug Arna varaði við hættu á mansali í nefndaráliti sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar haustið 2017. Í kjölfar háværrar umræðu um málefni einstakra barnafjölskyldna sem sóttu um hæli á Íslandi höfðu formenn flokka, annarra en Sjálfstæðisflokksins, lagt fram lagafrumvarp sem miðaði að því að liðka fyrir möguleika barnafjölskyldna á að fá hælisumsóknir teknar til efnismeðferðar á Íslandi. Áslaug og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn frumvarpinu á þeim grundvelli það gæti ýtt undir mansal. Áslaug fjallaði um málið í ræðustól Alþingis og fréttastofa RÚV sagði frá því, en Rauði krossinn brást við og hafnaði því að frumvarpið væri til þess fallið að ýta undir mansal.
 
Aðspurð hvort hún telji að frumvarpið hafi raunverulega ýtt undir mansal, og hvort mansal hafi þá aukist síðan frumvarpið var samþykkt, segist Áslaug ekki muna eftir frumvarpinu.
 
Fréttastofa sendi ráðherranum hlekk á nefndarálitið og fékk eftirfarandi svar: „Í raun er afar erfitt að svara þessari spurningu því engar rannsóknir hafa farið fram í þessu sambandi og því skortir áreiðanleg gögn. Á hinn bóginn liggur fyrir að samkvæmt skýrslu frá Europol hefur mansal aukist á síðustu árum í Evrópu. Við vitum að lögregla hefur haft til rannsóknar mál sem varða aðstæður vegalausra barna og barna sem hafa komið hingað til lands með fólki sem það þekkir ekki og hafa fylgt þeim úr flóttamannabúðum. Samkvæmt skýrslu Europol hafa um 10.000 börn horfið úr flóttamannabúðum á meginlandi Evrópu og ekki er vitað um afdrif þeirra. Þetta er því  ríkjandi vandi innan Evrópu, smygl og mansal á börnum, hættan er því fyrir hendi og ástæða til að vera á varðbergi hér á landi líka.“ 

Batt vonir við að Ísland fengi betri umsögn í skýrslunni 

Aðspurð hvort það hafi komið henni á óvart að Ísland fengi ekki betri umsögn í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins svarar Áslaug: „Ég batt vonir við það. Og miðað við hvað hún fjallar jákvætt um það sem er verið að gera hér á landi þá býst ég við að við séum komin ansi nálægt því að vera komin í fyrsta flokkinn. Og það er auðvitað sú lágmarkskrafa sem við gerum.“