Nær væri að verja almannafé í annað

08.07.2020 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildar á Landspítala segir það ekki vera hlutverk Landspítala að skima fríska ferðamenn við landamæri Íslands. Í facebook-færslu líkir hann því við að læknar sinni þrifum í Smáralind, nær væri að verja almannafé til annarra verkefna. 

Ragnar Freyr var gestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í dag. Um 25.000 hafa nú verið skimaðir við landamærin frá því að skimun hófst þar um miðjan júní. Um 70 hafa greinst jákvæðir, meirihluti með mótefni og án einkenna. 

„Þannig að alger meiripartur, 99,7% af einstaklingum sem fara í þessa skimun eru neikvæðir í skimuninni. Það segir okkur að prófið er ekki að gagnast okkur nógu vel. Og þá held ég að það sé miklu skynsamlegra að við verjum peningunum okkar í annað,“ segir Ragnar Freyr.

Íslendingarnir smita, ekki túristarnir

Hann leggur til að skimun ferðamanna verði hætt, Íslendingum sem komi frá útlöndum verði boðið að fara í sóttkví og þeir síðan skimaðir innan tiltekins dagafjölda

„Tilfinning mín er að flestir sem smitast af COVID-19 séu komnir með einkenni á 4-6 dögum. Lengsta sem ég hef heyrt af er 12-13 dagar en það er í algerum undantekningartilfellum. Við föngum langflesta ef við höfum þá stutt í sóttkví, þannig held ég að við séum að nýta peningana sem allra best. Og að sama skapi finnst mér ekki að Landpítali eigi að verja tíma sínum í að sinna frísku fólki. Við erum þarna til að sinna sjúklingum og veiku fólki. Þangað eigum við að beina kröftum okkar,“ segir Ragnar Freyr.

Hann bendir á að ferðamenn virðist ekki smita Íslendinga.

„Þeir sem hafa smitað eru Íslendingar sem smita aðra Íslendinga, ekki túristarnir. Mín tilfinning er sú að við stöðvum þessa skimun, búum til  nýtt prógramm byggt á þeim gögnum sem eru núna fyrir hendi,“ segir Ragnar Freyr.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi