Mynd af palestínsku vegabréfi fjarlægð af Instagram

Mynd með færslu
 Mynd: Bella Hadid - Instagram

Mynd af palestínsku vegabréfi fjarlægð af Instagram

08.07.2020 - 15:02
Fyrirsætan Bella Hadid hefur látið samfélagsmiðilinn Instagram heyra það eftir að miðillinn ritskoðaði og fjarlægði mynd af palestínsku vegabréfi föður hennar sem hún birti fyrr í vikunni.

Hadid, sem er með rúmlega 31 milljón fylgjenda á Instagram, sagði frá því í Instagram sögu (e. Instagram Story) sinni í gær að mynd sem hún birti af bandarísku vegabréfi föður síns hefði verið tekin út þar sem hún færi gegn „samfélags viðmiðum“ (e. community guidelines) miðilsins um áreiti og einelti. Við myndina skrifaði hún „My baba and his birthplace of Palestine,“ eða „Pabbi minn og fæðingarstaður hans, Palestína,“ en á myndinni má sjá Palestínu skráða sem fæðingarstað föður hennar í vegabréfinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bella Hadid - Instagram

Hadid birti mynd á Instagram á reikningi sínum þar sem hún spyr Instagram hvað það sé nákvæmlega við stolt hennar á fæðingarstað föður hennar sem geti flokkast sem „einelti, áreiti, grafískt eða nekt.“ Þá veltir hún því fyrir sér hvort það sé bannað að vera palestínskur á Instagram, ef svo sé sé það einfaldlega einelti. „Þú getur ekki strokað út söguna með því að þagga niður í fólki. Þetta virkar ekki svona,“ skrifar hún að lokum. 

Þar á eftir birtir hún myndina af vegabréfi föður síns aftur ásamt texta þar sem hún segist vera stolt af því að vera palestínsk. Þá hvetur hún fylgjendur sína til þess að birta á sínum reikningum hvar foreldrar þeirra fæddust til að minna þau á hversu stoltir þeir séu af því hvaðan þeir komi. Þessi seinni birting Hadid af vegabréfinu hefur enn sem komið er ekki verið fjarlægð af miðlinum. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hadid tjáir sig um uppruna sinn eða lýsir yfir stuðningi við Palestínu. Árið 2017 tók hún til að mynda þátt í mótmælum fyrir utan bandaríska sendiráðið í London í kjölfar ákvörðunar Donald Trump um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísrael og færa sendiráð Bandaríkjanna þangað. Þá hefur hún nýtt sér samfélagsmiðla til að tjá sig um málin líkt og eldri systir hennar, Gigi Hadid, sem hefur einnig talað fyrir frjálsri Palestínu á sínum miðlum.

Tengdar fréttir

Ísrael og Palestína á mannamáli

Stjórnmál

Sendiráð flutt til Jerúsalem á morgun