Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mæta Icelandair með afgerandi afstöðu félagsmanna

08.07.2020 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Samninganefnd Flugfreyjufélagsins gerir ráð fyrir að hitta samninganefnd Icelandair sem fyrst hjá Ríkissáttasemjara segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. 73 prósent félagsmanna greiddu atkvæði gegn kjarasamningi og lá niðurstaðan fyrir í hádeginu. Guðlaug Líney segir að samninganefndin sé með ríkan samningsvilja en með afgerandi afstöðu félagsmanna sinna í farteskinu.

„Það er mjög ánægjulegt að kjörsókn var mjög góð eða 85 prósent. Félagsmenn hafa sýnt mjög afgerandi að þeir eru búnir að fella samninginn með 73 prósent greiddra atkvæða,“ segir Guðlaug Líney. „Nú heldur þetta í rauninni bara sinn vanagang eins og gerist ef kjarasamningar eru  felldir í atkvæðagreiðslu. Ríkissáttasemjari boðar til nýs fundar og við mætum þar með ríkan samningsvilja eins og áður en þó með afgerandi afstöðu okkar félagsmanna.“

„Ég geri bara ráð fyrir því að jafnstórt fyrirtæki á Íslandi og Icelandair er fari eftir reglum vinnumarkaðarins og hitti okkur hjá vinumarkaði,“ segir Guðlaug aðspurð um þá yfirlýsingu Icelandair að fyrirtæki skoði nú alla möguleika í stöðunni. Í maí sögðu Fréttablaðið og Morgunblaðið að Icelandair íhugaði að ráða flugfreyjur utan Flugfreyjufélags Íslands ef kjarasamningur næðist ekki við félagið. „Í fyrsta lagi eru stéttarfélög félög starfsmanna og með öllu óeðlilegt að fyrirtæki séu að skipta sér af starfsemi þeirra,“ svarar Guðlaug Líney. „Þetta hefur jú verið látið falla og ég harma það, eins og ég segi, að jafn stórt félag á íslenskum vinnumarkaði skuli fara í svona leiki. Ég neita að trúa því að það verði gert og vonast eftir því að hitta viðsemjendur okkar hjá ríkissáttasemjara.“