Lýsir Trump sem sjálfselskum lygara

08.07.2020 - 00:08
President Donald Trump speaks during a roundtable discussion about "Transition to Greatness: Restoring, Rebuilding, and Renewing," at Gateway Church Dallas, Thursday, June 11, 2020, in Dallas.(AP Photo/Alex Brandon)
 Mynd: AP
Mary Trump, bróðurdóttir Donalds Trump bandaríkjaforseta, lýsir honum sem sjálfselskum lygara í endurminningabók sem kemur út næsta þriðjudag.

New York Times greinir frá því að í bókinni saki Mary forsetann um að hafa greitt staðgengli fyrir að taka inntökupróf í háskóla fyrir sig, enda líti hann á svindl sem lífsstíl. Þá segi í bókinni að Trump hafi mótast af siðblindum föður sínum á ofbeldisfullu heimili og að systir forsetans, Maryanne Trump Barry, hafi álitið hann hugsjónalausan trúð.

Bókin ber heitið Too Much and Never Enough: How My Family Created the World's Most Dangerous Man eða Of mikið og aldrei nóg: Hvernig fjölskyldan mín bjó til hættulegasta mann í heimi. Mary er dóttir Freds Trump Jr., eldri bróður forsetans, sem lést árið 1981. Í bókinni segir að enginn í fjölskyldunni hafi heimsótt föður hennar á dánarbeðið. 

Í New York Times segir að þótt ýmsir fyrrum samstarfsmenn Trumps hafi birt afhjúpandi frásagnir af forsetanum sé endurminningabók frænku hans fyrsta gagnrýna frásögnin innan úr fjölskyldu hans.

Kröfu fjölskyldu forsetans um lögbann við útgáfu bókarinnar var hafnað í síðustu viku. Hvíta húsið hefur lýst því yfir að bókin byggist á lygum og Trump segir hana vera skáldskap.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi