Katrín átti fund með Kára í Stjórnarráðinu

08.07.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, átti fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðinu í dag. Katrín bauð Kára til fundarins sem stóð í um hálfa klukkustund.

Kári tilkynnti á mánudag að fyrirtæki hans myndi hætta að skima fyrir kórónuveirunni á landamærunum í næstu viku. Forsætisráðherra hefur sagst vona að hægt verði að finna leið til þess að skimun geti haldið áfram með óbreyttum hætti næstu vikur.

Fréttablaðið greindi fyrst miðla frá því að Kári hafi fundað með Katrínu.

Kári vildi ekki greina frá efni fundarins með forsætisráðherra í dag þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann þáði ekki fundarboð Katrínar í gær til þess að ræða landamæraskimunina.

„Þessu máli er lokið í eitt skipti fyrir öll“

„Þessu máli er lokið í eitt skipti fyrir öll,“ sagði Kári í viðtali í sjónvarpsfréttum á mánudagskvöld, þegar hann var spurður hvort Íslensk erfðagreining myndi koma aftur að skimunum með beinum hætti á ný. Hann sagðist ekki hafa séð tilburði íslenskra stjórnvalda um að fá annan til að taka við skimununum af fyrirtæki sínu.

Þegar Kári tilkynnti að Íslensk erfðagreining myndi hætta að skima fyrir íslensk stjórnvöld á mánudag, birti hann bréfasamskipti sín og Katrínar. Kári skrifaði Katrínu 1. júlí þar sem hann lagði til að sett yrði á laggirnar Faraldsfræðistofnun Íslands og bauð fram húsnæði erfðagreiningar til að byrja með. Forsætisráðherra svaraði 4. júlí og sagði að verkefnisstjóra hjá sóttvarnalækni yrði gert að skoða tillöguna og svara fyrir 15. september.

„Það svar var ekki í nokkru samræmi við það sem ég lít svo á að séu þarfir þessa fyrirtækis sem er að losna undan þessu oki sem þessi skimun er sem allra fyrst,“ sagði Kári.

Leitað lausna

Katrín sagðist svo í kvöldfréttum í gærkvöldi vera staðráðin í að tryggja að áfram verði hægt að skima tvö þúsund manns á sólarhring þótt Íslensk erfðagreining hætti þátttöku við landamæraskimun.

„Stefnan er tekin á það að þetta geti gengið snurðulaust fyrir sig áfram. Ég er búin að funda með ýmsum aðilum í dag, þar á meðal forstjóra Landspítalans, og þau hafa auðvitað verið að undirbúa sýkla- og veirufræðideildina til þess að koma með miklu meira afgerandi hætti inn í þetta verkefni,“ sagði Katrín í gær.

Aðspurð hvort stjórnvöld hefðu ekki átt að vera löngu búin að taka þau skref sem nú eru tekin sagði Katrín að vafalaust mætti deila um það. „En við höfum auðvitað verið að læra eftir því sem þessum verkefnum vindur fram, það er í raun og veru ótrúlega stuttur tími síðan skimunin hófst,“ sagði hún. 

Katrín sagði að það sé örugglega matsatriði hversu góð samskipti stjórnvalda hafi verið við Íslenska erfðagreiningu en þau hafi „notið mjög góðs af þeirri reynslu og þekkingu“ sem fyrirtækið býr yfir. 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi