„Held að við séum flest þessarar skoðunar“

08.07.2020 - 23:12
Mynd: RÚV / RÚV
Landspítalinn á fyrst og fremst að sinna veiku fólki,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildar á Landspítala og kveðst ekki vera eini starfsmaður spítalans sem er þessarar skoðunar. 

26.000 sýni hafa verið tekin við landamæri Íslands á síðustu þremur vikum. Um 70 hafa greinst jákvæð, meirihlutinn með mótefni eða án einkenna.

Ragnar Freyr sagði í kvöldfréttum það ekki vera hlutverk Landspítala að skima fríska ferðamenn við komuna til landsins.  Áður hafði hann í Facebook-færslu líkt  því við að læknar sinni þrifum í Smáralind. 

„Mér finnst að Landspítalinn, háskólasjúkrahúsið okkar eigi fyrst og fremst að sinna veiku fólki,“ segir Ragnar Freyr og kveðst ekki vera eini starfsmaður spítalans sem er þessarar skoðunar. 

„Ég hef talað við þó nokkra í dag og í gær og ég held að við séum flest þessarar skoðunar,“ segir hann.

Tími til að spyrna við fótunum

Jón Magnús Jóhannesson deildarlæknir á Landspítala er einn þeirra. Hann segir í færslu á Facebook að verið sé að undirbúa „í ótrúlegum flýti skimun á Landspítala með aðferðafræði sem spítalinn hafi litla sem enga reynslu af og sem byggi á frekar þunnum gögnum.

Skimunin svari ekki kostnaði og því sé óábyrgt og ekki réttlætanlegt að setja Landspítalann í þá stöðu að taka sýnin til skimunar.

„Við vitum betur, við höfum ávallt vitað betur og nú er tíminn til að spyrna við fótum, segir Jón Magnús í færslu sinni.

 

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi