Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Facebook lokar 50 síðum tengdum Roger Stone

Mynd með færslu
 Mynd:
Samskiptamiðillinn Facebook lokaði í dag 50 síðum tengdum Roger Stone, fyrrverandi stjórnmálaráðgjafa Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Reuters fréttaveitan greindi frá, en Stone var fyrr á þessu ári dæmdur í 40 mánaða fangelsi og á að hefja afplánun í næstu viku.

Dóminn hlaut hann fyrir að hindra framgang réttvísinnar, m.a. með röngum yfirlýsingar varðandi vitnisburð sinn fyrir Bandaríkjaþingi vegna netþjófnaðar á tölvupóstum Demókrataflokksins í aðdraganda forsetakosninganna 2016.

Í yfirlýsingu frá ;Facebook segir að Stone og samstarfsmenn hans hans, m.a. liðsmenn hægrisamtakanna Proud Boys, hafi notað falska Facebook reikninga til að gera færslum og bókum Stone hærra undir höfði.

Stone var ekki einn um að vera lokaður út af Facebook í dag, því samfélagsmiðillinn lokaði einnig fölskum reikningum sem sagðir eru tengjast fjölskyldu Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu.

Þá var síðum tengdum stjórnmálasamtökum í Ekvador og Úkraínu einnig lokað.

Nathaniel Gleicher, yfirmaður netöryggismála hjá Facebook, segir aðgerðirnar nú eiga að sýna að allar tilraunir til að auka pólitísk áhrif flokka og einstaklinga með gerviumferð verði stöðvaðar sama hversu vel tengdir þeir séu sem þar eigi hlut að máli.

„Það skiptir ekki máli hvað þeir eru að segja og það skiptir ekki máli hverjir þeir eru,“ sagði Gleicher. „Við gerum ráð fyrir að við munum sjá fleiri stjórnmálamenn reyna að fara yfir þessi mörk og nota samhæfða tilbúna hegðun til að hafa áhrif á umræðuna.“