Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Baldur vonandi sjóklár fyrir helgi

08.07.2020 - 21:48
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Stefnt er að því að Breiðafjaraðarferjan Baldur verði orðin sjófær á ný fyrir helgi. Þetta segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða. 

„Það er enn stefnt að því að varahlutirnir komi til landsins á morgun og ef það gengur eftir þá fer að hilla undir að hægt verði að segja ferjuna í gagnið,“ segir hann. Staðan verður tekin á hádegi á morgun.

Baldur var á leið frá Stykkishólmi út í Flatey með um 70-80 farþega á mánudaginn í síðustu viku þegar skipstjórinn fann að ferjan var farin að missa afl. Svartan reyk lagði frá Baldri og reyndist túrbínana í aðalvél ferjunnar vera ónýt.

„Þetta var erfiður dagur, ekki síst að vera með farþega strandaglópa út í eyju, þó þetta hafi leyst ágætlega,“ rifjar Gunnlaugur upp.

Á meðan komu túrbínunnar hefur verið beðið hefur annað skip Særún siglt út í Flatey og yfir á Brjánsæk í stað Baldurs. 

Gunnlaugur segir Særúnu hafa leyst Baldur ágætlega af. 

Baldur tekur um 200 farþega og bíla, en Særún eingöngu 130 farþega og enga bíla. „Við erum alveg að ná að þjónusta Flatey ágætlega,“ segir hann og kveður mikinn straum farþega út í eyjuna líkt og undanfarin sumur. 

Töluvert er líka um bókanir fyrir næstu helgi. „Við erum að vona að við verðum komin í gang þá,“ segir hann.