Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allir möguleikar skoðaðir

Mynd með færslu
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir þá stöðu sem komin er upp eftir að félagsmenn í Flugfreyjufélagi Íslands felldu kjarasamning félagsins ekki góða. Nú þurfi að skoða alla möguleika, félagið hafi teygt sig eins langt og hægt sé og vilji starfsfólkið ekki vinna á þeim kjörum sem það getur boðið þurfi að skoða stöðuna upp á nýtt.

„Þetta er ekki góð staða því að við fórum inn í þessar viðræður með þau markmið að tryggja samkeppnishæfni félagsins til framtíðar og á sama tíma standa vörð um starfskjör og  ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna hjá okkur og tryggja áfram að þetta yrði langeftirsóttasti vinnustaður fyrir þessar starfsstéttir á Íslandi,“ segir Bogi.

Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru afgerandi; 26,46% greiddu atkvæði með samningnum en 72,65% á móti. 0,89% skiluðu auðu.

Bogi segist hafa talið að með samningunum hafi félagið boðið flugfreyjum og -þjónum ein bestu starfskjör sem þekkist hjá þessum starfsstéttum í hinum vestræna heimi.  „Það er því mjög sérstakt að okkar mati að samningarnir hafi verið felldir með svona miklum meirihluta,“ segir hann.

Kom verulega á óvart

Hvað heldur þú að hafi ráðið þar mestu um? „Við erum ekki alveg búin að átta okkur á því satt að segja. Við erum búin að semja við bæði flugvirkja og flugmenn um verulegar breytingar á samningum þar og við vorum í rauninni að vinna með sömu hluti hér. Þar voru samningarnir samþykktir með miklum meirihluta þannig að þetta kemur okkur  verulega á óvart því við vorum búin að gefa talsvert eftir og komumst ekkert lengra hvað það varðar.“

Í yfirlýsingu sem Icelandair sendi frá sér eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir segir að þeir möguleikar sem eru í stöðunni verði nú skoðaðir. Spurðir hverjir þeir séu svarar Bogi að nú verði það metið. „Við höfum ekki möguleika á að breyta samningunum varðandi hagræðingu og kostnaðarhlutfall hjá okkur. Það bara gengur ekki upp í því verkefni sem við erum í sem er að tryggja framtíð félagsins. Þannig að það þarf þá að skoða einhverjar aðrar leiðir í þessari stöðu. Ég get ekki svarað nákvæmlega hvaða leiðir það eru á þessum tímapunkti.“

Við komumst ekki lengra

Fyrir nokkru var rætt um stofnun nýs flugfreyjufélags. Kæmi til greina fyrir Icelandair að semja við annað stéttarfélag flugfreyja en Flugfreyjufélag Íslands?  „Það er okkar markmið númer 1,2 og 3 að semja við Flugfreyjufélag Íslands. En ef starfsfólkið vill ekki vinna á þeim kjörum sem félagið getur staðið undir þá þarf eitthvað að skoða stöðuna upp á nýtt. Þess vegna erum við að skoða allar leiðir núna.“

Nú hefur samningurinn verið felldur - veistu til þess að einhverjar aðgerðir á borð við verkfall séu fyrirhugaðar? „Ég hef ekki heyrt af neinu slíku. Enda er tiltölulega lítil frammistaða hjá okkur þessa dagana.“

Hafið þið teygt ykkur eins langt og hægt er? „Já, það er því miður þannig. Við komumst ekki lengra. “

Kom niðurstaðan ykkur á óvart? „Já, þetta kom okkur mjög á óvart. Báðir aðilar skrifuðu undir þessa samninga í mjög góðri trú eftir mjög mikla vinnu og viðræður.“