Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Virkjun í Hverfisfljóti hafi verulega neikvæð áhrif

07.07.2020 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Skipulagsstofnun hefur skilað áliti á frummatsskýrslu um fyrirhugaða virkjunarframkvæmd í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi frá 2017. Telur stofnunin framkvæmdina hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og að tilefni hefði verið til að meta hana með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt á mati á umhverfisáhrifum 9,3 megavatta virkjunar í Hverfisfljóti í Skaftárhreppi. 

Frummatskýrslan var lögð fram 2017

Ragnar Jónsson, landeigandi við Hverfisfljót, lagði fram frummatsskýrslu um virkjun í Hverfisfljóti til athugunar 13. september, 2017. Mannvit annaðist gerð skýrslunnar. Þar eru kynnt áform um allt að 9,3 megavatta virkjun með átta hundruð metra langri og eins til þriggja metra hárri stíflu og 750 fermetra stöðvarhúsi ásamt aðkomuvegi og þrýstipípu.

Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir þá röskun á Skaftáreldahrauni sem virkjunin mun valda. Verndargildi þess sé bæði á landsvísu og heimsvísu. Hraunið sé hluti af viðurkennt sem UNESCO jarðvangur (e. Global Geo park) og að mati Skipulagsstofnunar séu framkvæmdirnar líklegar til að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu þar sem upplifun ferðamanna komi til með að breytast á svæðinu.

„Umrædd virkjun er á svæði þar sem engin mannvirki eru fyrir og lítil sem engin ummerki eru um rask af manna völdum. Framkvæmdin mun þannig hafa verulega neikvæð áhrif á landslag og víðernisupplifun og framkvæmdasvæðið mun taka á sig yfirbragð iðnaðarsvæðis að framkvæmdum loknum. Skipulagsstofnun tekur undir það sem fram hefur komið í athugasemdum við frummatsskýrslu framkvæmdaraðila, að fyrirhugaðar framkvæmdir komi til með að raska sérstæðri landslagsheild og breyta ásýnd óraskaðs svæðis verulega,“ segir í tilkynningu frá Skipulagsstofnun í dag.

Benda á veikleika í rammaáætlun

Áform um virkjun Hverfisfljóts við Hnútu eiga sér nokkra sögu frá því að fyrst var tilkynnt til Skipulagsstofnunar um 2,5 MW virkjun á svæðinu árið 2006. Árið 2008 tók Skipulagsstofnun ákvörðun um matsáætlun um allt að 15 MW virkjun. Í umhverfismatsferlinu hafa áform framkvæmdaraðila breyst á þann veg að í matsskýrslu er gert ráð fyrir rúmlega 9 MW virkjun.

„Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun,“ segir í skýrslunni. Tilefni hefði verið til að meta hana með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV