Vill ræða við ríkið um meiri uppbyggingu á Bakka

07.07.2020 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Öllum starfsmönnunum 80 sem sagt hefur verið upp störfum hjá Kísilveri PCC á Bakka býðst tímabundin vinna í sláturvertíðinni í haust. Þekkinganet Þingeyinga hyggst greiða götu þeirra sem vilja fara í nám. Sveitarstjóri Norðurþings hefur óskað eftir viðræðum við stjórnvöld um frekari uppbyggingu á Bakka.

 

Slæm staða á markaði

Forsvarsmenn PCC segja heimsfaraldurinn hafa haft veruleg neikvæð áhrif á verð og eftirspurn eftir kísilmálmi. Fyrirtækið sér ekki annað í stöðunni en að stöðva vinnsluna í lok júlí. Stefnt er að því að hefja aftur starfsemi um áramótin en í millitíðinni vill fyrirtækið halda í starfsfólk sem margt er af erlendum uppruna. Fyrirtækið, Norðurþing og stéttarfélagið Framsýn vinna að því að útvega fólkinu tímabundna atvinnu. „Fjallalamb hefur boðist til að taka 50 manns í vinnu í haust í sláturtíðina og Norðlenska hefur líka tekið verkefninu vel og boðið starfsfólkinu vinnu. Þannig að ef allir vildu er vinna fyrir alla í haust,“ segirAðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar.

 

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Kísilverið og vinnubúðirnar, þar sem hluti starfsmannanna býr.

 

Býðst að fara í nám

Starfsmenn klára uppsagnafrest sinn í lok júlí eða byrjun ágúst. Þekkingarnet Þingeyinga hyggst bjóða öllum sem þá verða án vinnu ráðgjafarviðtal. Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir, verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga segir að viðtölin eigi að gefa betri mynd af stöðu hópsins. „Þá sjáum við hvort þessir aðilar geta nýtt sér námskeið hjá okkur, hvort við þurfum að sérsníða námsleiðir, hvort þau séu gjaldgeng í háskólanám eða fá bara aðstoð við að leita að vinnu.“

Vill skerpa á framtíðarsýninni

Sveitarfélagið hefur óskað eftir viðræðum við stjórnvöld um hvernig megi bregðast við stöðunni sem upp er komin á svæðinu, bæði til lengri og skemmri tíma litið. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings vonast eftir því að fá fund með fulltrúum ríkisstjórnarinnar á næstu dögum. „Við sjáum auðvitað fyrir okkur aukna verðmætasköpun á Bakka til lengri tíma litið og við þurfum að skerpa á sýn stjórnvalda og okkar, hins opinbera um hvernig við sjáum uppbyggingunni fram haldið þar.“

Hann horfir til þess að treysta framtíð kísilversins en vill líka laða að önnur orkufrek fyrirtæki, til dæmis á sviði matvælaiðnaðar, og koma upp iðnaðargarði. Kísilverið hafi bara átt að vera byrjunin á Bakka. 

Hætt við atvinnuleysi í haust

 

Mynd með færslu
 Mynd: Framsýn
Starfsmenn PCC á Bakka.

 

Seinna í þessum mánuði ætlar Framsýn að funda með starfsmönnunum og spyrjast fyrir um áform þeirra. Aðalsteinn hjá Framsýn reiknar með því að flestir velji að vera áfram. Sláturtíðin er auðvitað ekki nóg, bara einn eða tveir mánuðir. Hann óttast að atvinnuleysi blasi við mörgum í lok árs. „Verði ekki búið að taka ákvörðun um að endurræsa verksmiðjuna um áramótin gætu menn lent í miklum erfiðleikum.“

Kristján Þór segir að þróun veirufaraldursins hafi mikið að segja um hvernig fer. 

Fréttastofa reyndi að ná viðtali við starfsmenn sem hefur verið sagt upp en hafði ekki erindi sem erfiði. Starfsmaður sem fréttastofa náði tali af í síma sagði að margir vél- og rafvirkjar hygðust leita að öðru starfi á Íslandi á meðan vinnslan liggur niðri, ekki endilega á Húsavík. Hann var ekki á meðal þeirra sem misstu vinnuna og hrósaði fyrirtækinu fyrir að aðstoða þá sem var sagt upp við atvinnuleitina. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi