Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sniðganga vörur úr kókoshnetum sem apar tína

07.07.2020 - 15:48
Erlent · Asía · Dýr · Dýravelferð · Tæland
Mynd: EPA-EFE / EPA
Nokkrar breskar verslanir hafa hætt sölu á kókosafurðum frá Tælandi eftir ábendingar frá dýraverndunarsamtökum, sem segja illa farið með apana sem tína kókoshneturnar. Yfirvöld á Tælandi þvertaka fyrir að nokkuð sé hæft í ásökununum.

Kókosolía, kókosvatn og kókosmjólk er flutt í stórum stíl frá Tælandi. Í fyrra nam útflutningsverðmæti vara sem unnar eru úr kókos um 400 milljónum Bandaríkjadala, eða hátt í 60 milljörðum íslenskra króna. Varningurinn er unninn úr kókoshnetum sem þjálfaðir apar tína úr trjánum. Þeir eru mun afkastameiri en mennirnir og geta tínt allt að eitt þúsund kókoshnetur á dag. Afköst manna sem tína úr trjánum eru um 80 kókoshnetur á dag.

Dýraverndunarsamtökin PETA segja hins vegar að níðst sé á öpunum og að aðbúnaði þeirra sé verulega ábótavant. Þeir séu veiddir í náttúrunni og látnir strita við kókoshnetutínslu bundnir í band.

Þá gagnrýna samtökin að kókoshnetutínslan sé nýtt sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn og aparnir sömuleiðis látnir læra ýmsar kúnstir, eins og að hjóla, til að skemmta ferðamönnum.

Samtökin hvetja til sniðgöngu á kókosafurðum frá Tælandi, nokkuð sem þó nokkrar verslanir í Bretlandi hafa þegar tekið til sín. Verslanir á borð við Waitrose, Ocado og Boots hafa ákveðið að taka úr sölu nokkrar kókosafurðir frá Tælandi og í yfirlýsingu frá verslunarkeðjunni Morrisons segir að þegar hafi allar vörur, sem unnar eru úr kókoshnetum sem apar tína, verið teknar úr sölu hjá þeim. 

Carrie Symonds, unnusta Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er ein þeirra sem vakið hefur máls á aðbúnaði apanna og hvatti í síðustu viku allar stórverslanir til að taka úr sölu kókosafurðir sem unnar væru með þessum hætti. 

Stjórnvöld í Tælandi hafa vísað gagnrýninni á bug og segja ekkert til í því að illa sé farið með apana sem tíni kókoshneturnar. Jurin Laksanawisit, viðskiptaráðherra Tælands, segir að aparnir tíni aðeins lítið brot af þeim kókoshnetum sem notaðar eru. Hann sagði sömuleiðis að herferð PETA hefði þegar haft talsverð áhrif á sölu kókoshnetuvarnings í Bretlandi, sem og í öðrum Evrópulöndum. 

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá apa við kókoshnetutínslu í Tælandi. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV