Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skoða húsnæði þar sem margir hafa lögheimili

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt - RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vinnur nú að því í samstarfi við byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlitið að skoða húsnæði þar sem mikill fjöldi fólks er skráður með lögheimili.

Í dag var farin eftirlitsheimsókn á Bræðraborgarstíg 3. Húsið er í eigu HD verks ehf., fyrirtækisins sem á húsið við Bræðraborgarstíg 1 þar sem þrír létust í eldsvoða þann 25. júní síðastliðinn. Samkvæmt þjóðskrá hafa 134 skráð lögheimili að Bræðraborgarstíg 3, langflestir erlendir ríkisborgarar. 

Skoða húsnæði í eigu HD verks ehf. og annarra

Í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg 1 var ákveðið að ráðast í eftirlit með húsnæði þar sem óeðlilega margir eru skráðir með lögheimili. Sum húsanna eru í eigu HD verks ehf. Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

„Við erum að reyna að átta okkur á hvaða ástæður eru bak við svona mikinn fjölda heimilisfólks í litlu rými,“ segir Jón Viðar. Hann segist ekki geta tjáð sig um ástæðurnar eins og stendur en segir ljóst að mun færri búi í húsunum en séu skráðir þar til heimilis. Til að byrja með verði farið í eftirlitsheimsóknir í sex til átta hús í flestum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. 

Aðspurður segir Jón Viðar eftirlitsferðirnar hafa gengið vel hingað til og ekki hafa verið vandamál að fá aðgengi að húsunum.