Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óánægja með ákvörðun Fangelsismálastofnunar

07.07.2020 - 20:11
Mynd: RÚV / RÚV
Töluverð óánægja er með ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri. Formaður Lögreglufélagsins segir hana vanhugsaða og kostnaðarsama fyrir embættið.

Starfsmenn hissa

Allir fangar sem dvalið hafa hér í fangelsinu á Akureyri voru fluttir í önnur úrræði í vor. Með því átti að spara peninga en til stóð að opna aftur í september. Það var svo tilkynnt í gær að af því verður ekki.  Gestur Ragnar Davíðsson, varðstjóri í fangelsinu á Akureyri er einn þeirra sem missa vinnuna. 

„Við fengum hringingu í gærmorgun bara þar sem við vorum stödd á landinu. Það voru nú flestir í sumarfríi, sumir vöknuðu upp í tjaldinu sínu í Ásbyrgi við símann og aðrir í Reykjavík og svo framvegis. En mig grunaði það nú ekki að ég ætti eftir að vera kominn hingað norður í dag til að útskýra það af hverju ég er að loka dyrunum í fangelsinu í síðasta skiptið,“ segir Gestur.

„Þannig að þetta kemur flatt upp á okkur, reksturinn hefur gengið vel og við höfum fáar athugasemdir fengið og engar um að þetta hafi verið óhagkvæmt.“

Segir lokunina kosta lögregluembættið pening

Lögreglan á Akureyri hefur átt í nánu samstarfi við starfsmenn fangelsisins undanfarin ár. Kári Erlingsson, formaður Lögreglufélagsins undrast ákvörðun fangelsismálastofnunar. 

„Af því að við deilum húsi þá hefur fangelsið ekki þurft að hafa nema einn fangavörð á vakt á nóttunni og lögreglumenn sjá þá um að aðstoða og tryggja öryggi hans. Á móti hefur fangelsið og fangaverðir sinnt þeim sem að lögreglan hefur handtekið og verið vistaðir í fangageymslum lögreglu,“ segir Kári.

„Þessu hlýtur að fylgja aukinn kostnaður fyrir lögregluna á þessu svæði til að geta farið að sinna þessari fangavörslu sem þarna dettur þá út. Eða þá ef það verður ekki kemur það niður á löggæslu því að það er þá alltaf einn lögreglumaður sem að neyðist til að vera fastur yfir þessu.“