Ný íslensk kvikmynd frumsýnd í miðjum COVID-faraldri

Mynd: Sena / Skjáskot

Ný íslensk kvikmynd frumsýnd í miðjum COVID-faraldri

07.07.2020 - 12:26

Höfundar

Íslenska kvikmyndin Mentor kom í bíó í miðjum COVID-faraldri. Til stóð að hún færi í sýningu í febrúar. „Svo kom einhver vírus, ég veit ekki hvort þið hafið heyrt af honum“, segir Þórhallur Þórhallsson, einn aðalleikara myndarinnar.

Kvikmyndin var því klár til sýningar þegar slakað var á samkomutakmörkunum, sagði Þórhallur í samtali við Morgunútvarp Rásar 2. Þó þurfti að gera ráðstafanir vegna faraldursins á forsýningu myndarinnar og til dæmis gæta að því að nægt bil væri á milli sæta og áhorfenda.

Kvikmyndin fjallar um sautján ára stúlku sem er að hefja feril sinn sem uppistandari. Hún skráir sig í landsmót uppistandara og ákveður að leita leiðsagnar hjá þeim sem sigraði keppnina áður. Þórhallur fer með hlutverk leiðbeinandans og segir karakterinn vera spes. „Kannski er hann ekki besti maðurinn til að fá hjálp frá.“ Uppistandssamfélagið hér á landi kemur eðli málsins samkvæmt mikið við sögu í myndinni. Þórhallur segir að sífellt bætist í samfélagið.

Tökur fyrir kvikmyndina hófust í fyrra og Þórhallur segir að þær hafi tekið um tíu daga. Það hafi ekki verið mikið fjármagn til staðar í byrjun verkefnisins en mikil ástríða. „Þetta er svona íslenska geðveikin. Þetta reddast bara. Eigum við ekki að gera þetta bara?“ 

Þórhallur segist vonast til þess að sem flestir fari í bíó og styðji þannig við íslenska kvikmyndagerð.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Skortur á bíómyndum háir kvikmyndahúsum hér á landi

Tónlist

Skipta Háskólabíó upp — „skemmtanahungur“ í fólki

Kvikmyndir

Bíósýningar hefjast á ný en Bíó Paradís lokað