Íhuga að skima tíu sýni í einu

07.07.2020 - 15:04
Heilbrigðisyfirvöld og Landspítalinn eru að kanna möguleika á að auka afkastagetu sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans, sögðu Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi í dag. Meðal þess sem er verið að skoða er að greina tíu sýni í einu í stað þess að greina hvert fyrir sig. Slíkt hefur verið prófað í Þýskalandi og gefið góða raun en ekki er víst að slík greining sé jafn næm og sú sem hefur verið notuð hérlendis.

Upplýsingafundurinn í dag var sá fyrsti eftir að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi hætta skimun sýna eftir viku.

„Íslenskt samfélag stendur í þakkarskuld við Íslenska erfðagreiningu,“ sagði Þórólfur. Hann sagði að legið hefði fyrir í nokkurn tíma að fyrirtækið gæti ekki haldið skimun áfram til lengdar enda lægju áherslur þess annars staðar.

Skoða tíu sýna skimun

Sýkla- og veirufræðideild getur annað 500 sýnum á dag eins og staðan er núna. Hægt er að margfalda hana með því að skima tíu sýni í einu eins og nú er verið að kanna, sagði Þórólfur. 

Þá væru tíu sýni rannsökuð saman. Ef ekkert kæmi fram úr þeirri skimun væri rannsókn sýnanna lokið. Ef smit greindist við skimun tíu sýna þyrfti að skima hvert fyrir sig til að komast að því hvaða sýni væri smitað. 

Ekki er komið formlegt svar frá Landspítalanum um hvort hann geti aukið afkastagetu sína umfram 500 sýni. Ef það verður ekki hægt setur það sóttvarnaryfirvöldum ákveðnar skorður.

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan

Fleiri leiðir eru til skoðunar til að bregðast við. Þannig hefur til dæmis verið til skoðunar, frá því fyrir tilkynningu Kára, að leyfa fólki frá fleiri löndum en Færeyjum og Grænlandi að koma hingað án skimunar. Það hefur verið talið óhætt vegna góðrar stöðu í baráttunni við veiruna í þeim löndum.

Fullkominn tækjakostur væntanlegur í október

Við erum með eina veirufræðirannsóknarstofu á Íslandi sem hefur sinnt rannsóknum á undanförnum árum, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Áætlanir hafa verið í gangi um að auka afköst hennar og undanfarið hefur verið reynt að flýta því en það hefur ekki gengið nógu vel. „Þetta er brotalöm í okkar viðbúnaði og þetta er einn af þeim hlutum sem við þurfum að taka til endurskoðunar þegar við gerum þennan faraldur upp,“ sagði Þórólfur.

Alma Möller landlæknir sagði að ekki væri langt síðan ákveðið var að styrkja sýkla- og veirufræðideild Landspítala. „Það er löngu búið að senda inn pantanir fyrir tækjum en það er auðvitað allur heimurinn að sækjast eftir sömu tækjunum. Þess vegna er þessi bið. Það er ekki von á þessu tæki sem eykur afkastagetuna til muna fyrr en í október.“

Gætu þurft að endurskoða takmarkanir á flugi

Viðbúið var að einhvern tímann kæmi upp sú staða að afkastageta skimunar yrði ekki jafn mikil og eftirspurn eftir því að koma með flugi til landsins, sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Hann sagði að nú væri 1.950 manna hámark á komu farþega um Keflavíkurflugvöll til landsins. Víðir sagði að það gæti breyst með hliðsjón af reynslunni.

Víðir sagði að enn sem komið er hefði ekki þurft að meina flugfélögum aðgang að Keflavíkurflugvelli.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að ef opnað yrði fyrir komu fleiri þjóða en Færeyinga og Grænlendinga án skimunar gæti það létt á þrýstingi á skimun. Einnig gæti það haft áhrif í öfuga átt ef staða faraldursins versnar. „Við þurfum ennþá að horfa á þetta þannig: Við getum opnað meira, við getum líka þurft að loka meira.“

Lítið smit í íslensku samfélagi

Þórólfur sagði að síðastliðnar þrjár vikur, frá mánudeginum 15. júní hafi um 32 þúsund farþegar komið til Íslands. Sýni hafa verið tekin úr um 24 þúsund þeirra og hafa tíu greinst með virkt smit. Beðið er með mótefnagreiningu hjá tveimur.

Ellefu innanlandssmit hafa greinst hér á síðustu vikum sem rakin hafa verið til innlendra og erlendra ferðamanna sem hafa komið hingað til lands. Ekkert innlent smit hefur greinst síðustu fimm daga. „Ég held að það sé hægt að fullyrða að það sé lítið smit til staðar í íslensku samfélagi,“ sagði Þórólfur. Hann sagði að áherslan þyrfti að vera áfram sú að skima á landamærum, rekja smit og viðhalda almennum smitvörnum.

Meðal annars sem kom fram var að Þórólfur taldi loftborið smit ekki skipta miklu máli hérlendis. Hann vill líka halda í áform um seinni skimun fólk snokkrum dögum eftir að það kemur til landsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi