Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hótel Saga óskar eftir greiðsluskjóli

Fundurinn fór fram á Hótel Sögu í dag. - Mynd: RÚV / RÚV
Hótel Saga hefur óskað eftir greiðsluskjóli í samræmi við lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Lögin voru samþykkt á Alþingi í júní sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 faraldursins.

Tólf prósenta herbergjanýting

Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Hótels sögu, segist sjá fram á 90-95% tekjufall á næstu mánuðum og aðeins 12 prósenta nýtingu á herbergjum í júlí, rétt eins og í júní. Hún segir meðalverð á gistinóttum helmingi lægra en á sama tíma í fyrra.

„Hótelrekstur næstu mánuði verður þess eðlis að það þarf að borga með honum. Við þurfum að leita allra leiða til að fá inn nýja hluthafa eða finna aðrar leiðir til að halda fyrirtækinu gangandi,“ segir Ingibjörg í samtali við fréttastofu. 

Bíða enn eftir endurgreiðslu vegna launa í uppsagnarfresti

Öllum starfsmönnum Hótel Sögu var sagt upp um mánaðamót apríl og maí. Fyrirtækið vonaðist til þess að létta róðurinn með því að nýta úrræði stjórnvalda um 85% endurgreiðslu vegna launa í uppsagnarfresti.

Ingibjörg segist enn bíða eftir endurgreiðslunni. „Við höfum þurft að leggja út fyrir laununum þessa tvo mánuði. Það þrengir verulega að,“ segir hún.

Stúdentar bjarga ekki fyrirtækinu

Greint var frá því í lok maí að til stæði að Hótel Saga leigði herbergi til stúdenta í haust.

Aðspurð segir hún það úrræði koma til með að hafa lítil áhrif eins og staðan er núna: „Þó að við fengjum nokkra stúdenta þá er það ekki að fara að bjarga fyrirtækinu.“