Glaðasti hundur í heimi býður hundum í afmæli

Mynd: RÚV / RÚV

Glaðasti hundur í heimi býður hundum í afmæli

07.07.2020 - 14:43

Höfundar

Það var margt um kátan hvuttann þegar hundurinn Hansi varð sex ára á dögunum og bauð helstu hundum nærsveita og eigendum þeirra í veislu. „Þetta var fyrst brandari,“ viðurkennir Kristín Einarsdóttir eigandi hans, en brandarinn vakti slíka lukku að fyrr en varði hafði bæði fólk og ferfætlingar fjölmennt í veisluna til að fagna Hansa.

Hans Óli, eða Hansi eins og hann er oftast kallaður, er búsettur í Hveravík við Steingrímsfjörð. Hann hélt fjölmennt afmæli á dögunum þar sem allir aðalhundarnir úr nærsveitum kíktu við og glöddust með honum. „Því ekki að gleðjast yfir því að hann sé búinn að gleðjast með okkur öll þessi sex ár, og vonandi mörg ár í viðbót?“ segir Kristín, sem er hæstánægð með uppátækið.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afmælisgestir voru í skýjunum með veisluna

Þegar hún tjáði vinum og vandamönnum að hana langaði að halda upp á afmæli Hansa hló fólk til að byrja með, en áður en hún vissi af var fjöldi fólks og hunda búið að melda sig í veisluna. „Fólki fannst þetta fyndið og mér fannst þetta fyndið. Svo var fullt af fólki bara búið að þiggja boð í afmæli.“  Til að halda uppi stuði, skipuleggja leiki og passa upp á að allt færi sómasamlega fram, hafði Kristín samband við Björk Ingvarsdóttur hundaþjálfara sem býr í Hólmavík og réð hana sem veislustjóra. Veislan heppnaðist svo vel að Kristín segir líklegt að hér eftir verði afmæli Hansa árlegur fögnuður. „Mér finnst það sjálfsagt mál. Mér finnst að allir hundar eigi að halda upp á afmæli allra hunda.“ Sumarlandinn skellti sér í afmælisveisluna og heilsaði upp á Hans Óla sem stóð sig eins og hetja sem gestgjafi.

„Þetta var svo skemmtileg hugmynd hjá Kristínu. Þegar hún hringir í mig og biður mig að vera veislustjóri í hundaafmæli vissi ég ekki alveg hvað ég væri að fara út í en við erum alltaf til í skemmtilegar hugmyndir,“ segir Björk. Og Hansi var afar ánægður með herlegheitin. „Hann var alveg í skýjunum með daginn,“ segir Kristín að lokum.

 

Tengdar fréttir

Norðurland

„Þarft að vera sérstök tegund af hálfvita“

Menningarefni

Landsvirkjun réð særingamann til að kveða niður draug

Menningarefni

„Sá þessa nörda og ætlaði ekki að vera ein af þeim“