Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Aukafundur í bæjarráði vegna verkfalls Herjólfs

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Bæjarráð Vestmannaeyja kemur saman til aukafundar nú í hádeginu til að fjalla um kjaradeilu skipverja í Herjólfi. Sólarhrings verkfall þerna og háseta hófst á miðnætti. Margir eru fastir í Eyjum eða komast ekki þangað. Fullbókað var á Hótel Vestmannaeyjum í kvöld en gestir hafa nú afbókað vegna verkfallsins. 

Félagsdómur hafnaði í gærkvöld kröfu Samtaka atvinnulífsins um að boðuð vinnustöðvun yrði dæmd ólögmæt.

Á fund bæjarráðs í dag koma fulltrúar fyrirtækis bæjarins, Herjólfs ohf., og fara yfir stöðuna.

Þriggja daga verkfall fyrir verslunarmannahelgina

Meirihluti áhafnar Herjólfs, um 20 manns, eru í Sjómannafélagi Íslands og fyrir utan yfirstandandi verkfall er tveggja sólarhringa verkfall boðað í næstu viku, ekkert í þarnæstu en dagana fyrir verslunarmannahelgi er boðað þriggja sólarhringa verkfall. 

„Forsvarsmenn Herjólfs ohf. hafa ekki mætt til fundar þrátt fyrir að hafa ítrekað verið beðnir um það. Og við höfðum ekki önnur úrræði til að freista þess að draga þá á samningsborðið,“

segir Jónas Garðarsson formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands. Hann segir ekki hafa verið gerðan kjarasamning síðan Vestmannaeyjabær tók við rekstri Herjólfs 

Verkfallið veldur miklu usla, segir hótelstjóri

Verkfallið hefur mikil áhrif á samgöngur til og frá Eyjum. Flugfélagið Ernir flýgur ekki á þriðjudögum til Eyja en er nú að taka niður fólk á biðlista ef vera kynni að hægt væri að fylla flugvél. Flug mun hafa verið á Bakka í dag en það er ekki áætlunarflug. 

Magnús Bragason hótelstjóri á Hótel Vestmannaeyjum segir síðustu vikur hafa verið mjög góðar eftir skelfilega tíma þar á undan. Fullbókað var á hótelið í nótt og líka í kvöld:

„Þessar aðgerðir valda miklum usla og fólk kemst ekki til Eyja sem á bókað í dag. Og sannarlega eru þeir strandaglópar sem komu í gær.“

Voru gestir ykkar pirraðir að komast ekki upp á land?

„Nei, það er svo gott veður í Vestmannaeyjum, að það eru allir glaðir að geta dvalið lengur, þeir sem eiga tök á því. En sumir þurfa að komast sökum vinnu upp á land og þeir eru að leita leiða til að komast.“