Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ákvæðum um forseta breytt í stjórnarskrá

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verið er að færa stjórnarskrána í átt til nútímans og nær þeim vinnubrögðum sem ástunduð hafa verið. Það er mat Ragnhildar Helgadóttur prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um annan kafla stjórnarskrárinnar. Almenningi gefst nú kostur á að tjá sig um það í samráðgátt stjórnvalda.

Ragnhildur var í viðtali á Morgunvakt Rásar eitt. Í öðrum kafla stjórnarskrárinnar er meðal annars fjallað um hlutverk forseta Íslands. Ákvæði stjórnarskrárinnar um forsetaembættið virðast hafa verið nokkuð opin til túlkunar. Til marks um það eru rökræður lærðra sem leikra um merkingu orða stjórnarskrárinnar um embættið.

Ragnhildur segir mikilvægt að efni stjórnarskrár sé nokkuð skýrt, ekki „á dulmáli”, þótt líklega hætti fólk seint að skeggræða um hana. Hún sagði forsetakjör lengi hafa farið fram á óskýrum forsendum. Með tillögunum sé jafnframt verið að lagfæra atriði sem mikið hafi verið rætt um.

Lenging kjörtímabils

Hugmyndin um lengingu kjörtímabils forseta úr fjórum árum í sex ásamt því að forseti sitji þá aðeins tvö kjörtímabil hefur vakið hvað mesta athygli. Það byggi á því sem tíðkist í öðrum lýðveldum.

Jafnframt er horft til þess að hingað til hafi forsetar almennt setið lengur en fjögur ár. Forseti hafi iðulega verið sjálfkjörinn í embætti eða „sigrað með miklum yfirburðum” eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Ekki er gert ráð fyrir að forseti þurfi að ná kjöri með meirihluta atkvæða. Gert er ráð fyrir að þessi ákvæði taki gildi að loknu næsta kjörtímabili sitjandi forseta.

Hlutfallstala meðmælenda í stað ákveðins fjölda

Ragnhildur Helgadóttir kvað að til bóta væri að forseti tæki ábyrgð á gjörðum sínum, nema þeim sem eru að tillögu og á ábyrgð ráðherra. Jákvæð uppfærsla lægi í einnig því við söfnun meðmælenda væri miðað hlutfall kosningabærra manna en ekki ákveðna fasta tölu.

Í drögunum er gert ráð fyrir að 2,5 til 5% kosningabærra manna mæli með forsetaframbjóðanda. Það sé svipað hlutfall mannfjöldans og ákveðið var við gerð lýðveldisstjórnarskrárinnar.

Ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar um málskotsrétt halda sér. Ragnhildur sagði gott að ríkisstjórn gæti þó dregið til baka lagafrumvarp sem forseti hefur synjað staðfestingar, líkt og gert var árið 2004 varðandi fjölmiðlafrumvarpið. Þegar það er gert verður ekki af þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ekki endilega sérstakt kosningamál

Tillögur ríkisstjórnarinnar byggja á drögum stjórnlagaráðs og samráði við almennings. Ragnhildur sagði umdeilt hvort hægt væri að byggja alfarið á hugmyndum stjórnlagaráðs.

Ýmis fleiri atriði í störfum forseta og ríkisstjórnar eru áréttuð og skýrð í tillögunum. Auk breytinga á ákvæðum um embættið er meðal annars þingræðisreglan áréttuð, staða ráðherra og ríkisstjórna eftir vantraust sömuleiðis. Starfsstjórn er þannig eingöngu ætlað að taka nauðsynlegar ákvarðanir.

Ragnhildur kvað ólíklegt í sögulegu ljósi að stjórnarskrá yrði að sérstöku kosningamál. Almenningur hefur nú tvær vikur til að tjá sig og taka afstöðu til draga að frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í samráðsgáttinni.