Vonar að hægt sé að finna lausn með Kára

06.07.2020 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vona að lausn finnist á landamæraskimunum og að Íslensk erfðagreining og stjórnvöld geti áfram unnið sem best að heilbrigði þjóðarinnar.

Þetta skrifar hún í stutta færslu á Facebook-síðu sína í dag í tilefni af opnu bréfi Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, sem hann birti í dag. Þar birti hann bréfasamskipti sín og Katrínar um framhald landamæraskimunarinnar sem fyrirtæki Kára hefur haldið utan um og lýsti því yfir að Íslensk erfðagreining myndi hætta að skima fyrir íslensk stjórnvöld í næstu viku.

Katrín segir að framlag fyrirtækis Kára í baráttunni við kórónaveiruna hafi verið ómetanlegt. „Það vitum við öll og það verður seint fullþakkað. Án aðstoðar fyrirtækisins hefði baráttan við faraldurinn orðið okkur miklu mun erfiðari og þungbærari,“ skrifa Katrín í dag.

Faraldsfræðistofnun Íslands

Í bréfi Kára til ríkisstjórnarinnar 1. júlí stakk Kári upp á því að stofnsett yrði Faraldsfræðistofnun Íslands til þess að taka við skimunum af Íslenskri erfðagreiningu. Kári bauð húsakynni Íslenskrar erfðagreiningar undir stofnunina fyrsta kastið enda væri þar gott aðgengi að sérfræðingum sem geta liðsinnt þessari stofnun.

Katrín tók vel í þessar hugmyndir í svari sínu til Kára 4. júlí og greindi frá því að búið væri að skipa verkefnastjóra fyrir þetta verkefni. Hann ætti að skila ríkisstjórninni skýrslu sem fyrst en eigi síðar en í september.

Það finnst Kára vera of langur tími, og hann lýsti því opnu bréfi í dag að nú væri hann orðinn fullsaddur á því sem hann segir vera tillitsleysi stjórnvalda fyrir fyrirtæki sínu. Þess vegna myndi fyrirtækið hætta öllum samskiptum við Landlæknisembættið og hætta landamæraskimunum.

Góð hugmynd

„Eins og kemur fram í bréfinu sem ég sendi Kára er augljóst að geta íslensks samfélags til að takast á við faraldra eins og COVID-19 þarf að vera meiri en hún er nú,“ skrifar Katrín á Facebook í dag. „Þess vegna tók ég vel í erindi hans um að koma á laggirnar sérstakri faraldsfræðistofnun innan embættis landlæknis - þar sem byggð yrði upp þekking og reynsla til að takast á við faraldra framtíðar.“

„Mér finnst þetta reyndar mjög góð hugmynd,“ skrifar Katrín og bendir á að hún hafi þegar sett vinnu af stað til að framkvæma hugmyndina.

„Slíkur undirbúningur og framkvæmd tekur hins vegar alltaf ákveðinn tíma og ég lagði því til að þær tillögur myndu liggja fyrir eigi síðar en 15. september,“ skrifar Katrín enn fremur.

„Kári Stefánsson segir í opnu bréfi sínu að sér finnist að þessi vinna verði að ganga hraðar fyrir sig. Ég get vel fallist á það sjónarmið og við munum gera okkar til þess að unnið verði eins hratt og örugglega framast er kostur.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi