Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vinsælt glæpahlaðvarp fjallar um morðið á Birnu

06.07.2020 - 11:25
Mynd með færslu
Thomas Möller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness við aðalmeðferð máls ákæruvaldsins gegn honum. Mynd: RÚV
Í nýjasta þætti Crime Junkie, eins vinsælasta glæpahlaðvarps í heimi, er fjallað um morðið á Birnu Brjánsdóttur. Í á annað hundrað þáttum í hlaðvarpsröðinni hefur verið fjallað um sakamál af ýmsum toga víða um heim.

Í kynningu þáttarins segja þáttastjórnendur frá því að íslenskur hlustandi hafi lagt til að fjallað yrði um þetta tiltekna sakamál. Ashley Flowers og Brit Prawat, þáttastjórnendur, eru áhugasamar og segjast vera spenntar fyrir því að fjalla um sakamál á Íslandi.

Hlaðvarpið er framleitt í Bandaríkjunum og fjallar yfirleitt og aðallega um þarlend sakamál. Flowers og Prawat nefna í upphafi þáttarins hversu lág glæpatíðni er á Íslandi og segja erfitt að gera sér í hugarlund hvernig hægt er að hafa hana svona lága, miðað við glæpatíðni í Bandaríkjunum.

Thomas Möller Olsen var dæmdur í 19 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjenss árið 2018 fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur í janúar 2017. Það er með þyngstu refsidómum sem hafa verið kveðnir upp hér á landi.

Í viðtali í Kastjósi á RÚV haustið 2017 lýsti Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu, hvernig óvarfærin fjölmiðlaumfjöllun í tengslum við aðalmeðferð sakamálsins á hendur Olsen hafi valdið henni streitu. Sigurlaug sagðist hafa upplifað endurtekið áfall vegna þessa.

Fjöldi fólks sameinaðist í sorg vegna sviplegs fráfalls Birnu. Þúsundir minntust Birnu í göngu í miðbæ Reykjavíkur í janúar 2017 og kveikt var á kertum til minningar um hana á Grænlandi og í Færeyjum.

Þáttinn má finna í helstu hlaðvarpsveitum.